138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það hefði örugglega verið til bóta ef við hefðum haft forustumenn í ríkisstjórninni sem hefðu kannski haft einhverja reynslu af starfi hjá einkaaðilum, starfi hjá einkafyrirtækjum eða því að starfa á sýslumannsskrifstofum og þá séð hvernig svona hlutir ganga fyrir sig. Það hefði örugglega líka verið til bóta ef við hefðum verið með menn í samninganefndinni sem hefðu ekki fyrst og fremst starfað hjá hinu opinbera og haft góða sýslumenn sér til fulltingis við það að innheimta kröfur, eins og ákveðinn einstaklingur innan samninganefndarinnar. Menn hefðu þá upplifað það og þekkt að ekki er alltaf að marka þær hótanir sem maður fær frá samningsaðilum sínum, sérstaklega ekki þegar málin snúast um peninga. Heldur snýst þetta um að reyna að komast að samkomulagi og það að viðkomandi vill fá borgað.

Ef maður þarf síðan að vega og meta hvort við hefðum ekki átt að hugsa að það væri meira virði að fá aðeins lægri vexti á þessi lán versus síðan það að fá viðurkenningu á því að við þurfum ekki (Forseti hringir.) að borga þetta, þó að við borguðum, held ég að það væri ekki spurning um hvað börnin okkar segðu eftir 7 til 8 eða 15 ár.