138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hún fór mjög vel yfir það sem snýr að lagalegri hlið samningsins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það, vegna þess að núna er kominn svona EFTA-krækja eins og kallað er, á Ragnars H. Hall-ákvæðið. Svo við rifjum það hér upp, fjallar það einfaldlega um það að farið sé eftir íslenskum lögum við gjaldþrot á íslenskum fyrirtækjum. Nú kom það fram á fundi fjárlaganefndar að prófessor í lögfræði benti á að það gætu komið upp deilur um hvað gerðist við það að EFTA-dómstóllinn kæmi með niðurstöðu, það gætu komið upp deilur um það milli Breta, Hollendinga og Íslendinga hvað það þýddi í raun og veru. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvert er álit hennar á þessu og hver er hugsunin á bak við það að setja þessa EFTA-krækju á?