138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með vísan til spurningarinnar um EFTA-dómstólinn og þær lagaflækjur og krækjur sem þar eru, þá held ég að best sé á þessum tíma að vísa bara til álits Ragnars Halls, þar kemur þetta skýrt fram, þó svo að búið sé að flækja þetta á annan veg núna.

Þingmaðurinn var með margar spurningar. Það er ekki nýtt að hæstv. fjármálaráðherra og aðstoðarmaður hans geri lítið úr fólki sem er á annarri skoðun en þeir sjálfir, þannig að ég svara þeirri spurningu með þeim hætti að það er þeim ekki til sóma og mikið til minnkunar að láta svona út í fólk sem er að leiðrétta þau mistök sem þeir hafa gert.

Samþykki Alþingi Íslendinga þetta frumvarp eins og það liggur fyrir, er alveg ljóst að Alþingi er að leggja blessun yfir það að dómsvaldið í þessu tiltekna máli fari úr landi, það er alveg klárt. Það stendur hvergi neitt um það að dómháin skuli vera íslensk. Þannig að þarna er löggjafinn að fara á svig við stjórnarskrána, því að allir eiga að hafa rétt á að fá leyst úr (Forseti hringir.) málum sínum fyrir þeim dómstólum sem eru í því landi hverju sinni.