138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú geta fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna sem hér sitja skrifað enn eina tillögu á blað hjá sér og þá eru komnar fram tillögur frá stjórnarandstöðunni sem hægt er að velta fyrir (Gripið fram í.) sér, þannig að ég þakka fyrir það. Það er þá ekki hægt að núa fólki því um nasir að það hafi ekkert til málanna að leggja hér. Ég er nú bara ánægð með að sjá tvo hv. þingmenn úr ríkisstjórnarflokkunum og einn hæstv. forsætisráðherra að hlusta, auk tveggja hv. þingmanna í hliðarsalnum. Já, þarna kemur hæstv. fjármálaráðherra, best að hafa þetta allt saman rétt.

Mig langar, virðulegi forseti, að nota tímann sem ég á eftir til að spyrja hv. þingmann betur út í Brussel-viðmiðin. Ég veit að hún hefur aðeins eina mínútu til að svara, en sér hún þess mikinn stað og mikið hald í þeirri umfjöllun sem nú er komin inn í þetta frumvarp og inn í viðaukasamningana um að vissulega sé samið á grundvelli (Forseti hringir.) Brussel-viðmiðana? Sér hv. þingmaður þess stað í málinu?