138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn.

Já, vissulega förum við að borga árið 2016 og áhyggjur mínar hafa alla tíð snúið að því að við stöndum ekki undir þessum skuldbindingum sem þjóð með allar hinar skuldirnar á bak við okkur sem lesa má um í nýja frumvarpinu.

Fari það þannig að Íslendingar geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, hvort sem það eru vextirnir einir og sér eða afborganir af láninu sjálfu, þá gjaldfellur lánið og ítarleg gjaldfellingarákvæði í upphaflega samningnum frá því í sumar, að mig minnir í 11 eða 12 liðum, og þá ber okkur að borga, það hlýtur að vera. Þess vegna skiptir svo miklu máli að Brussel-viðmiðin komi inn í þetta frumvarp eða að Brussel-viðmiðin frá því í sumar haldi, út af því að þar voru efnahagslegu fyrirvararnir teknir inn, að við gætum þá borgað það sem er verið að skikka okkur til að borga án þess að það sé viðurkennt að lögum að við skuldum (Forseti hringir.) þessa upphæð.