138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem talað var um tvo póla hjá tveimur forsætisráðherrum, öðrum stöddum í Bretlandi og hinum á Íslandi, og því til að svara að það hlýtur að enda með ósköpum og mér sýnist að það eigi að enda inni í Evrópusambandinu, svo að spurningunni frá Pétri Blöndal sé svarað fyrst.

Því er til að svara við spurningu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að ég les íslenska fjölmiðla, ég er búin að vera upptekin í allan dag og í hádeginu. Hér var verið að ræða þetta þegar ég kom í þingsalinn um klukkan hálftvö. Ég fer inn á íslensku fréttamiðlana og sé þessar fréttir, ég ætla ekki íslenskum fjölmiðlum að vera að ljúga til um þetta. Ályktunina hef ég ekki lesið enda er Ísland ekki aðili að Evrópusambandinu enn þá og því hef ég hana ekki undir höndum en ég treysti því að íslenskir fjölmiðlar segi þjóð sinni rétt frá þrátt fyrir að íslenskir fjölmiðlar hafi allt fram í andlát atkvæðagreiðslunnar um Icesave-samningana fullyrt að Framsóknarflokkurinn væri einn og einangraður í andstöðu sinni við Icesave-samninginn. (Forseti hringir.) Aldrei hefur Framsóknarflokkurinn fengið afsökunarbeiðni frá fjölmiðlum vegna þess þótt annað hafi komið í ljós.