138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:30]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var nú helst til stuttur tími fyrir mig að fara í andsvar, þannig að ég ákvað að fara í ræðu, enda hefur nokkuð verið eftir því kallað að hlýða á sjónarmið mín.

Hér hefur vissulega farið fram ítarleg umræða um Icesave-málið og þá niðurstöðu sem varð í málinu eftir að þingið lauk umfjöllun sinni um málið í lok ágúst. Og þó að sitt hvað gagnlegt hafi komið fram í þeirri umræðu sem ég hef hlustað á með mikilli athygli þá er ýmislegt sem hér hefur komið fram sem hefur gengið fram af mér. Til dæmis hefur því ítrekað verið haldið fram að íslenska ríkisstjórnin og þeir embættismenn sem hafa verið í forsvari að semja um þetta mál séu fyrst og fremst að ganga hagsmuna Breta og Hollendinga en ekki Íslendinga. Auðvitað vita þeir sem þessu halda fram að þetta er alrangt og furðulegt að þessu skuli vera haldið fram í ræðustól á Alþingi. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur auðvitað verið að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að ná hagstæðum samningum fyrir íslensku þjóðina.

Hér hefur ítrekað komið fram að menn hafa sagt að það sé allt í lagi að samþykkja ekki það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það hefur verið sagt að það gerist ekkert þótt málið sé látið liggja o.s.frv. Auðvitað vita menn að þetta er rangt. Það er bara þannig að ef við samþykkjum ekki þessa samninga er nú næsta öruggt að þau lán sem hefur verið kallað eftir eru ekki í hendi. Það má líka segja að þá geti Tryggingarinnstæðusjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá yrði auðvitað greiðslufall og við getum líka horft á það hvert afleiðingar yrðu, t.d. varðandi lánshæfismat ríkisins, sveitarfélaga og stórfyrirtækja. Við gætum verið að koma í veg fyrir allar þær stórframkvæmdir sem þá eru á döfinni og menn eru að kalla eftir fjármagni og reyna að leita eftir fjármagni í.

Maður mundi spyrja: Hvaðan mundi þá fást það fjármagn sem er verið að kalla eftir og HS Orka hefur verið að biðja um eða Landsvirkjun? Hvað með Evrópska fjárfestingasjóðinn? Það er bara að hluta komið í gegn það lán sem þar þarf í orkuframkvæmdir. Ég held að menn væru að kalla yfir sig algjöran frostavetur — algjöran frostavetur — í atvinnuuppbyggingu í vetur ef menn ætla að fara að láta þetta mál liggja.

Það er mjög sérstakt að menn séu á sama tíma að kalla eftir aukinni atvinnuuppbyggingu, að það sé lífsnauðsynlegt, og eftir slíku hefur verið kallað í margar vikur en á sama tíma á að segja nei við Icesave-samningnum. Ég held, virðulegi forseti, að það fari ekki saman.

Ég vil líka minna á að það er raunverulega allt atvinnulífið, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið, sem hafa kallað eftir því að fá lausn í þetta Icesave-mál. Þeir eru auðvitað að kalla á það til þess að fá lausn á ýmsum málum sem því tengjast, t.d. varðandi atvinnuuppbygginguna.

Sumir hafa verið að kalla eftir dómstólaleiðinni og að það sé bara allt í lagi þótt þetta sé látið liggja, að hér gerist ekki neitt eins og síðasti ræðumaður sagði, nema að þá gjaldfalla samningarnir. Hvað skeður þá? Þá fer þetta dómstólaleiðina. Er það endilega skynsamlegt fyrir okkur að það gerist? Ég vil nú vitna í ekki ómerkari mann en formann Sjálfstæðisflokksins sem hér talaði um dómstólaleiðina fyrir jólin þegar við vorum að ræða um þingsályktunartillögu um þetta mál. Hann sagði að því fylgdi mikil óvissa að fara dómstólaleiðina og enginn vissi hver niðurstaðan gæti orðið, hún gæti allt eins orðið óhagstæðari. Ég er sammála formanni Sjálfstæðisflokksins í því efni.

Ég ætla að víkja að tveimur málum sem hafa verið hér nokkuð rædd í dag. Í fyrsta lagi þá var í síðasta andsvari verið að skiptast á skoðunum um það sem fram kom í blöðunum eða einhverjum fréttamiðlum í dag varðandi samþykkt sem hafði verið gerð í Evrópuþinginu í gær. Því er haldið fram í þessum ræðustól að þetta væru hótanir, að ef Icesave-samningurinn verði ekki samþykktur kæmumst við ekki inn í Evrópusambandið. Þetta eru náttúrlega fullyrðingar sem engan veginn standast og ég held að menn ættu að lesa umrædda samþykkt Evrópuþingsins áður en farið er í slíkar fullyrðingar. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana, með leyfi forseta:

„Á mánudaginn samþykkti utanríkismálanefnd Evrópuþingsins tillögu til ályktunar Evrópuþingsins við lok umræðu um stækkunarstefnu Evrópusambandsins. Ályktun Evrópuþingsins um þetta efni er ekki bindandi. Tillagan var rædd í Evrópuþinginu í gær og gerðar á henni ýmsar breytingar, þó ekki á 27. lið hennar sem fjallar um Ísland. Þar er aðildarumsókn Íslands fagnað og mælt með henni, þess vænst að framkvæmdanefndin komi fljótt með álit á henni og fylgi því eftir með tillögu. Með tilliti til þess hve lýðræðishefð Íslands er sterk og að landið hafi tekið upp hátt hlutfall af Evrópusambandsreglum, íslensk lög, mun Ísland fá stöðu umsóknarríkis í náinni framtíð. En samt sem áður er lögð áhersla á að fylgni Íslands við skuldbindingar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eigi að vera kjarnaatriði í mati framkvæmdanefndarinnar á umsókninni.“

Hvorki er minnst á Icesave, Bretland né Holland í ályktuninni en hvatt til þess að framkvæmdanefndin opni sendiskrifstofu í Reykjavík á fyrri hluta ársins 2010. Þetta er nú það sem er í þessari ályktun. Síðan geta menn komið hér og dregið sínar ályktanir af því hvort þetta sé einhver þvingun eða hótun um að Ísland komist ekki inn í Evrópusambandið nema Icesave-skuldbindingarnar séu samþykktar.

Hitt atriðið sem ég vil ræða eru bréfaskipti mín við Gordon Brown en þau voru einnig til umræðu hér í morgun. Það ber auðvitað að segja að í þeim bréfaskriftum taldi ég rétt að vera með viðbrögð við því sem fram kom í bréfi frá forsætisráðherra Breta vegna þess að hann lagði sérstaka áherslu á skuldbindingargildi samninganna í bréfi sínu, sem er auðvitað bara ein hlið málsins, og því taldi ég rétt að halda vel til haga sjónarmiðum Íslendinga í þessu máli. Ég taldi rétt að halda því vel til haga og koma því til skila að Alþingi hafi aldrei fallist á eða viðurkennt að okkur hafi verið skylt að tryggja lágmarksinnstæðutryggingar. Þessu var nauðsynlegt að halda til haga í þessum samningum. Ég verð að segja það hér af því menn hafa eitthvað deilt á þessi bréfaskipti og hafa haldið því fram að ég hafi t.d. ekki haldið utan um hagsmuni Íslands. Það kom líka fram í fréttum í dag, í kjölfar þess að þessi bréfaskipti voru birt, að mikil umfjöllun sé um þessi bréfaskipti í Hollandi.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Fjölmargir fjölmiðlar í Hollandi fjalla um svarbréf Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Gordons Browns forsætisráðherra Bretlands í dag. Kemur fram í þeim öllum að Jóhanna segi í bréfinu til Browns að Íslendingar álíti Icesave-samkomulagið ekki bindandi og vísa hollenskir fjölmiðlar í frétt Bloomberg fréttastofunnar þar að lútandi.“

Það eru því skiptar skoðanir um þessi bréfaskipti, ekki bara hér á landi, heldur virðast Hollendingar ekki vera mjög ánægðir með þau.

Af því að hér er verið að halda því fram, að því er mér var sagt í morgun, að ég hafi verið að leyna þessum bréfaskiptum, þá er það alrangt. Þetta bréf er nýkomið frá Brown og ég svaraði honum nokkrum dögum síðar, það eru ekki nema örfáir dagar síðan og því var auðvitað ljóst að rétt var að bíða og sjá hvort eitthvert svar bærist við því sem ekki hefur enn komið.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um aðalatriðin sem komið hafa fram í umræðunni og svara því eins og ég tel rétt að gera miðað við það sem hér hefur komið fram. Sumu af þessu er full ástæða til þess að svara. Hér hefur verið farið í stjórnarskrána og því hefur verið haldið fram að ekki hafi verið hugað að því að frumvarpið kunni að stangast á við stjórnarskrá vegna þess í fyrsta lagi hve mikil óvissa ríkir um þá skuldbindingu sem ríkið sé að takast á hendur og í öðru lagi vegna meints framsals dómsvalds.

Því er til að svara að virtir sérfræðingar, m.a. á sviði stjórnskipunarréttar, komu að samningu frumvarpsins. Ekki komu fram hjá þeim efasemdir um að frumvarpið stæðist gagnvart stjórnarskrá. Óvissan, og undir það skal vissulega tekið, er fyrst og fremst um það hve mikið muni koma út úr þrotabúi Landsbanka Íslands og á hve löngum tíma.

Sem betur fer eru nú horfur á að endurheimtuhlutfallið verði tæp 90%, eða 88% kom síðast fram, um það efni, og vissulega hefur verið nefnt í því sambandi að vera kunni að reyna verði látið á stjórnskipulegt gildi neyðarlaganna og þar væri t.d. hætta á að forgangsröðun kröfuhafa mundi breytast. En það er vert að rifja það upp sem kemur fram í athugasemdum við frumvarp það sem fjármálaráðherra lagði fram síðastliðið sumar þegar farið var fram á ríkisábyrgðina í öndverðu, en þar segir að ríkislögmaður, með aðstoð fræðimanna, hafi á sínum tíma metið það svo að neyðarlögin stæðust gagnvart stjórnarskrá. Stefán Már Stefánsson prófessor, sem var einn af þeim sérfræðingum sem skrifuðu undir það, var sama sinnis. Lengra held ég að við komumst ekki til þess að öðlast fullvissu um það.

Varðandi meint framsal dómsvalds eru fullyrðingar um það rangar, að mínu mati. Hér er ekki um afsal á dómsvaldi að ræða heldur samning milli tryggingarsjóða landanna um að skipta eignum þrotabús Landsbanka Íslands jafnt á milli sín, í þeirri trú að Evrópuréttur mæli fyrir um slíkan jöfnuð. En komi í ljós að Evrópurétturinn kveði ekki á um slíkan jöfnuð og það er staðfest af EFTA-dómstólnum þá eru aðilar sammála um að íslenski sjóðurinn fái forgang umfram hina.

Því hefur verið haldið fram að útfærslan í samningunum sýni vantraust á íslenskum dómstólum. Vissulega er það svo að það er almennt vandamál sem við eigum við að glíma, þ.e. að endurreisa traust á alþjóðavettvangi á íslenskum stjórnvöldum og stofnunum. Hér háttaði einnig svo til að fulltrúar Íslands í samningaviðræðunum höfðu allt frá því í október 2008 haldið því fram að jafnræði ætti að ríkja á milli sjóðanna í löndunum þremur.

Þegar fram kom krafa í aðdraganda júnísamninganna um að þetta yrði endurspeglað í samningunum var erfitt að mótmæla því. Alþingi vildi hins vegar ekki fallast á þessa afgreiðslu málsins og því er það umtalsverður árangur að ná því fram í viðaukasamningum að ákvæðum samninganna verði vikið til hliðar reynist ákvæði Ragnars H. Halls, sem svo hefur verið nefnt, ef það reynist að hann hafi haft á réttu að standa. Bretar og Hollendingar féllust á þennan fyrirvara með tveimur skilyrðum. Í fyrsta lagi þyrftu íslenskir dómstólar að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Í öðru lagi mætti niðurstaða þeirra ekki vera í ósamræmi við álit EFTA-dómstólsins.

Þetta taldi ríkisstjórnin og ráðgjafar hennar ekki ómálefnaleg sjónarmið því að ágreiningurinn snýst fyrst og síðast um það hvort Evrópurétturinn geri kröfu til þess að jafnræði ríki milli þjóðanna þriggja. Við þær aðstæður er ekki óeðlilegt að gerð sé krafa um að byggt sé á niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem hefur það sérstaka hlutverk að túlka Evrópurétt fyrir okkur Íslendinga.

Það er talað um að fyrirvararnir séu að engu orðnir. Það eru auðvitað mikil rangtúlkun að svo sé, að gera lítið úr starfi Alþingis í sumar við afgreiðslu á Icesave-málinu. Sú vinna hefur skilað margháttuðum breytingum á lánasamningnum frá því í júní og ég skil alveg þá sem segja að þetta sýni að júnísamningurinn hefði getað verið betri en því er hins vegar til að svara að ég tel augljóst að við hefðum aldrei náð þessari niðurstöðu við samningaborðið þá.

Eftir atburði sumarsins þar sem öllum var ljóst hve pólitískt erfitt þetta mál væri breyttist samningsstaðan hreinlega og viðsemjendur okkar voru til í að gefa eftir atriði sem þeir hefðu aldrei tekið í mál á fyrri stigum. Stærstu atriðin í því sambandi eru tvímælalaust þessi: Það er efnahagslegi fyrirvarinn sem er kominn inn í samningana sem þýðir að þak er á greiðslum úr ríkissjóði á hverju ári. Þar með yrði tryggt að árlegar greiðslur verði okkur ekki ofviða.

Á móti gerðu viðsemjendur okkar kröfu um að við mundum þó a.m.k. ætíð borga vexti. Á það féllst ríkisstjórnin, m.a. í ljósi þess að það hlýtur að vera skynsamleg skuldastýring að greiða a.m.k. alltaf vexti af lánunum. Einnig væri það mjög slæmt fyrir orðspor okkar að neita því fyrir fram að borga vexti og í ósamræmi við venjur í alþjóðlegum lánasamningum. Það er álit sem er mikilvægt, bæði Seðlabankans og AGS, að við getum staðið undir þessum endurskoðuðu samningum.

Það má ekki gleyma því að Moody's hefur sett okkur á stöðugar horfur í fjárfestingarflokki og að Fitch hefur sagt í fjölmiðlum að lok Icesave séu forsenda þess að þeir geti endurskoðað þær neikvæðu horfur sem þeir hafa ríkissjóð nú á. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hafi það í huga.

Ragnars H. Hall-fyrirvarinn er kominn inn með þeim breytingum sem áður voru útlistaðar. Þar getur vissulega verið um umtalsverða fjármuni að ræða og m.a. þess vegna var hér um mjög erfitt atriði að ræða í viðræðum ríkjanna.

Dómstólaleiðin. Ekki reyndist síður erfitt að ná því fram að íslensk stjórnvöld héldu því til haga að þau hefðu aldrei viðurkennt skyldu til að ábyrgjast innstæður á Icesave-reikningnum. Það ítrekaði ég í umræddu bréfi mínu til forsætisráðherra Breta. Þar mættum við kröfu Breta og Hollendinga um að ríkisábyrgðin yrði að vera ótvíræð. Samkomulag var að lokum um að í frumvarpinu yrði tekið fram í 2. gr. að „opnist síðar leiðir til að láta á þetta reyna og falli dómur af hálfu þar til bærra aðila, þ.e. einkum EFTA-dómstólsins eða dómstóli Evrópusambandsins, ber fjármálaráðherra samkvæmt frumvarpinu að efna til viðræðna við aðra aðila málsins og eftir atvikum með þátttöku ESB og stofnana EES.“

Í sameiginlegu yfirlýsingu aðila frá 19. október 2009 segir að „aðilar lýsi yfir vilja sínum til að ræðast við komi fram beiðni um það frá einum aðilanum og eftir atvikum bregðast við þeim álitaefnum sem upp kunni að koma.“

Þarna er því komin mjög eindregin pólitísk skuldbinding til að taka á því máli sameiginlega ef síðar kæmi í ljós að íslensk stjórnvöld hefðu haft á réttu að standa. Þetta er auðvitað afar mikilvægt.

Að auki eru svo aðrar jákvæðar breytingar í viðaukasamningunum sem menn eru fljótir að gleyma. Til dæmis að áréttað er að náttúruauðlindir Íslands standi aldrei til fullnustu kröfum lánardrottna, né eignir sem íslenska ríkinu eru nauðsynlegar til rækslu hlutverks síns sem fullvalda ríkis og minnt er á þátt Brussel-viðmiðana í aðdraganda samninga.

Til viðbótar við þau atriði sem tekið er á í viðaukasamningunum hafa menn enn og aftur verið að ræða hluti sem ekki breytast, t.d. vextina og þrátt fyrir að 5,55% vextir séu nokkuð hærri en Bretum og Hollendingum býðst nú eru þetta mun lægri vextir en bjóðast Íslandi annars staðar. Meðalvextir Breta í 15 ára ríkisskuldabréfum þennan áratug eru rúmlega 4,6%, 3,8% vextir nú og að sjálfsögðu hefðum við viljað hafa vextina lægri en lengra komumst við ekki með það mál. Það verður að telja mjög langsótt að ætlast til þess að Bretar og Hollendingar láni íslensku sjóðunum á sömu kjörum og þeim bresku og hollenska þegar marglá fyrir í málinu að það voru íslensk stjórnvöld sem ætluðu að styðja við bakið á íslenska tryggingarsjóðnum.

Í uppslætti um þetta efni í Morgunblaðinu voru þar að auki bornir saman fastir og breytilegir vextir án þess að lesendum væri gerð grein fyrir því.

Þegar öllu er á botninn hvolft, hlýtur sú staðreynd að það tókst að ná vöxtunum niður úr 6,7% til 10 ára eins og var skrifað upp á í október 2008, í 5,55% til 15 ára og lengur ef þörf krefur, að teljast umtalsverður árangur. (PHB: Það er búið að semja.)

Þá hefur því verið haldið fram að í því sé fólgin sérstök gengisáhætta hvernig tryggingarsjóðurinn hagi kröfum sínum í bú Landsbankans. Í 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti er kveðið á um að á þeim degi þegar fyrirtækið er tekið til gjaldþrotaskipta skuli færa allar kröfur til íslensks gjaldmiðils. Þegar lög nr. 44/2009, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, voru sett var þar lögfest sambærilegt ákvæði en það þýðir að á úrskurðardegi, sem í tilfelli gömlu bankanna var sá dagur sem lögin öðluðust gildi, 22. apríl 2009, skyldi færa allar kröfur til íslensks gjaldmiðils.

Það kom hins vegar skýrt fram í aðdraganda setningar laga nr. 44/2009 að þetta þýddi ekki að breyta þyrfti öllum eignum fjármálafyrirtækja í íslenska mynt og fyrirtækin þurfa ekki að greiða út kröfur í íslenskri mynt. Sú gengisáhætta sem talað er um í áliti 4. minni hluta fjárlaganefndar, undir liðnum Krónutölufrysting, er því ofmetin. Ástæðan fyrir ákvæðinu er að þarna er ákveðinn dagur þar sem hlutföll krafna innbyrðis eru ákveðin og til að það sé hægt verða allar kröfur að vera í sömu mynt.

Það er auðvitað ekki rétt að kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hafi verið settar fram í krónum og fjárfar þeirra þar með bundið við gengi íslensku krónunnar 22. apríl. Þvert á móti var kröfunum lýst í pundum og evrum og eru því áfram bundnar gengi þessara mynta og þrátt fyrir að innbyrðis hlutföll krafna í búið miðist við gengi mynta 22. apríl hefur það ekki þau áhrif sem látið er að liggja.

Það er mikilvægt að það komi fram að þar sem gert er ráð fyrir því að bú Landsbankans greiði kröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til baka í pundum og evrum er engin gengisáhætta fólgin í því að misræmi myndist á milli krafna tryggingarsjóðsins í bú Landsbanka Íslands annars vegar og lána tryggingarsjóðsins frá Bretum og Hollendingum hins vegar. Kröfur sem rísa vegna innlánstrygginga eru í pundum og evrum og lánin eru einnig í pundum og evrum.

Af ofangreindum ástæðum má sjá að það sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum er í öllum meginatriðum byggt á röngum forsendum. Tugmilljarða gengisáhætta með uppsöfnuðu tapi frá því í apríl er ekki til staðar og fullyrðingar um að ríkið og tryggingarsjóðurinn hafi tekið óútskýrða áhættu með spákaupmennsku eru einfaldlega rangar. En engu að síður gætir áhrifa af þróun gengis á endanlega niðurstöðu við búskiptin og hvað endanlega fæst mikið upp í upplýstar kröfur. Það er alveg ljóst og enginn hefur haldið öðru fram. En lækki gengið enn frekar eru líkur til að hærra greiðist upp í lýsta kröfu og svo fremi að sigið valdi því ekki að endurheimtuhlutfallið fari yfir 100% forgangskrafna skaðar það ekki hagsmuni tryggingarsjóðsins svo miklu nemi. Vaxtagjöldin mundu hins vegar hækka í krónum talið. Styrkist gengið gæti endurgreiðsluhlutfallið hins vegar lækkað en þar sem krafan á tryggingarsjóðinn mundi lækka með samsvarandi hætti og vaxtakostnaðurinn mundi lækka í krónum talið mundi slík þróun líklega verða hagkvæm tryggingarsjóðnum.

Ég tel hins vegar rétt að tryggingarsjóðurinn geri heildstætt mat á þeirri gengisáhættu sem hvíla mun á sjóðnum og leiti leiða til að lágmarka hana eins og kostur er og það hefur verið rætt um að það mat fari fram.

Ég tel ekki nauðsynlegt, virðulegi forseti, að fara miklu frekar yfir þetta mál. Ég vil þó koma inn á eitt eða tvö atriði í viðbót.

Skuldsetning þjóðarinnar. Því hefur verið haldið fram að hún sé komin langt umfram það sem gerist hjá mörgum skuldugum þjóðum heims. Ég held að þvert á móti getum við bent á þjóðir eins og Bretland, Írland og Lúxemborg sem eru allar skuldsettari, mun skuldsettari en Íslendingar. Skuldir Íslands eru líka ekki fjarri erlendum skuldum Hollendinga, Belga og Tékka. Það hefur verið staðhæft að spá Seðlabankans um að útflutningstekjur verði um helmingur vergrar landsframleiðslu sé óraunhæft því hæsta hlutfallið hafi farið í 33%. Ég held að þetta sé ekki rétt því að hlutfallið hefur farið hækkandi og var 45% árið 2008 en ekki 33%, eins og nefnt var samkvæmt tölum Hagstofunnar. Með frekari fjárfestingu í útflutningsgreinum, ekki síst álframleiðslu, má búast við að þetta hlutfall hækki. Einnig er ljóst að með því lága raungengi sem við stöndum frammi fyrir má búast við enn meiri útflutningi eða a.m.k. auknum afgangi af viðskiptum við útlönd.

Það er talað um að 75% eignanna í eignasafninu gangi upp í skuldir vegna Icesave-reikninga. Síðan er talað um að í venjulegum gjaldþrotum teljist 20% endurheimtur á eignum góð. En við þetta er þrennt að athuga. Það er ekki um að ræða 75% eigna bankans heldur að eignir bankans nái að greiða ákveðið hlutfall forgangskrafna og Landsbankinn gerir ráð fyrir því eins og fram hefur komið, eða að um 88% fáist upp í forgangskröfur. Í þriðja lagi: Gjaldþrot íslensku bankanna eru ekki venjuleg gjaldþrot þar sem eignir eru ekki seldar á brunaútsölu heldur er reynt að hámarka virði þeirra. Einnig er ekki aðeins um að ræða að 75% eða 88% fáist upp í skuldir bankans í heild heldur aðeins forgangskröfur, sem er mikilvægt að menn hafi í huga.

Ég vil víkja að því að það hefur komið fram í umræðunni sí og æ og endurtekið að ummæli fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar tali til vitnis um að stjórnvöld hafi ekki haldið rétt á málum með hagsmuni Íslands í huga. Þetta er auðvitað alrangt. Ísland gekk til viðræðna við Breta og Hollendinga á þeim grundvelli að standa við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, auðvitað, að teknu tilliti til alvarlegrar stöðu í efnahag landsins. Um leið var því ávallt haldið til haga í samningum að sú ákvörðun Breta að kyrrsetja eignir Landsbankans í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkalaga hefði að okkar mati verið ástæðulaus og óútskýrð, auk þess að vera óþolandi framkoma gagnvart bandalags- og vinaþjóð.

Jafnframt var því skilmerkilega haldið til haga hversu miklu tjóni kyrrsetningin hefði valdið, ekki bara Landsbankanum og Íslandi öllu, heldur einnig kröfuhöfum og þar með talið innstæðueigendum Landsbankans.

Samninganefnd okkar hefur einnig ætíð haldið því fram að löggjöf Evrópusambandsins um innstæðutryggingar væri gölluð og ætti ekki við um kerfishrun. Það er ástæða til þess af þessu tilefni að halda þessu öllu til haga.

Sannleikurinn er hins vegar sá að við vorum algjörlega einangruð með afstöðu okkar. Staða Íslands var mjög þröng enda hvíldi margt á lausn Icesave-málsins eins og við höfum farið í gegnum og sú staða blasti við frá fyrstu dögum þessa máls. Íslendingar gengu til viðræðna um lausn deilunnar, ekki með hugarfari sakamanns, og það er mikilvægt að hafa það í huga, heldur með hugarfari þess sem telur sig hafa verið beittan órétti og ósanngirni. Það er kjarni málsins.

Brussel-viðmiðin sem urðu til fyrir atbeina Evrópusambandsins voru á vissan hátt eina viðurkenningin á því að eitthvað kynni að vera til í málflutningi okkar og þar átti fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar hlut að máli og fyrir það ber auðvitað að þakka. Þetta er kjarni málsins.

Ég vona, virðulegi forseti, að mér hafi tekist að skýra nokkuð sjónarmið mín í þessu máli sem kallað hefur verið eftir en ég vísa því alfarið á bug sem sífellt er verið að halda hér fram, sem er mjög ósanngjarnt að gera, að sú sem hér stendur hafi fyrst og fremst verið í öllu þessu máli frá upphafi að hugsa um hagsmuni Breta og Hollendinga. Það er ótrúlegt að þessu skuli vera haldið fram, aftur og aftur í ræðustól Alþingis.