138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir innlegg hennar í umræðuna.

Mig langar til að víkja að nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi varðandi dómstólaleiðina sem ég taldi fyrir ári síðan að við ættum ekki að láta reyna á á þeim tímapunkti. Við sitjum núna uppi með samning sem er jafngildur því að við höfum tapað málinu fyrir dómstólum. Ég var þeirrar skoðunar í desember í fyrra að við ættum að reyna að ná samkomulagi við Evrópusambandsríkin um að leysa þetta mál. Það tókst ekki vegna þess að viðmælendur okkar fóru fram á að fá það sem þeir töldu vera skuld okkar við þá að fullu greidda með vöxtum. Þess vegna eigum við ekki að fara þá leið þó að það hefði verið skynsamlegt að reyna hana í upphafi.

Standa fyrirvararnir? Ég verð að andmæla því sem hæstv. forsætisráðherra heldur hér fram. Efnahagslegu fyrirvararnir standa ekki. Sá mikilvægasti þeirra er þessi: Við ætluðum að láta það ráðast af hagþróun á Íslandi hvernig við mundum standa í skilum. (Forseti hringir.) Nú sitjum við uppi með samning þar sem við verðum ávallt að borga vextina. (Forseti hringir.) Lagalegi fyrirvarinn er einskis virði þegar hann getur einungis í besta falli (Forseti hringir.) leitt til þess að við fáum viðtal við Breta.