138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að lesa I. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið ásamt því að lesa 4. grein í þeim ágæta samningi. Ég veit raunar ekki hvort ég er ósammála eða sammála ráðherranum því að hún svaraði í rauninni ekki hvort hún væri til í að láta reyna á það fyrir hönd íslensku þjóðarinnar hvort jafnræðisreglan hefði verið brotin og þá skiptir í sjálfu sér litlu máli hvort hún hafi verið brotin út frá innstæðutryggingunum eða einhverju öðru. Var verið að brjóta gagnvart Íslandi samkvæmt jafnræðisreglu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, erum við til í að láta reyna á það?

Í framhaldi af þessu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra einnig: Nú hefur komið fram, og það er í raun ekki hrakið og hafa meira að segja ráðherrar tekið undir það, að íslensk þjóð er beitt ósanngirni og kúguð af erlendum ríkjum til að taka á sig skuldbindingar. Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin að láta kanna lagalegan rétt okkar til að sækja mál á hendur (Forseti hringir.) þessum löndum fyrir alþjóðadómstólum, Mannréttindadómstólnum hugsanlega, eða hugsanlega (Forseti hringir.) Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er ráðherrann til í að gera þetta fyrir hönd þjóðarinnar?