138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að við erum ekki sammála um þessa jafnræðisreglu og ég tel enga ástæðu til að láta reyna á hana vegna þess að ég tel að þetta sé ekki gilt sem hv. þingmaður heldur hér fram. Það að sækja rétt okkar, eins og hv. þingmaður talar um, það er farið inn á það í þessu nefndaráliti hvernig hægt er að gera það. Ef í ljós kemur fyrir einhverjum dómstólum að okkur hafi ekki borið þessar skuldbindingar munum við auðvitað láta sækja rétt okkar. En við erum að skrifa undir og ganga frá samningum sem við erum skuldbundin að standa við nema annað komi í ljós, að okkur hafi ekki borið þessar skuldbindingar, og þá ber okkur auðvitað að láta reyna á rétt okkar.