138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Einn þingmaður sagði gjarnan um stefnuræðu forsætisráðherra að þetta væri aumasta stefnuræða sem viðkomandi forsætisráðherra hefði haldið. Þetta var held ég um það bil ömurlegasta og aumkunarverðasta varnarræða sem haldin hefur verið um Icesave að mínu mati, og tíminn var því miður illa nýttur.

Hæstv. forsætisráðherra talar um að hér verði frostavetur ef málið er látið liggja. Höfum við heyrt þennan söng áður? Já, margoft. Við heyrðum hann í sumar og þessi hræðslupólitík sem alltaf er rekin áfram af hálfu ríkisstjórnarinnar sem er miklu meira en aumkunarverð. (Gripið fram í.)

Ég ætla að spyrja hæstv. forsætisráðherra um athugasemdir Sigurðar Líndals, eins helsta stjórnlagasérfræðings okkar í gegnum tíðina, og ég vona að hæstv. forsætisráðherra fari ekki að gera lítið úr honum. Ætlar hæstv. forsætisráðherra ekki að taka undir þetta með okkur í stjórnarandstöðunni, er ekki rétt að við förum yfir ábendingar Sigurðar Líndals? Ætlar forsætisráðherra ekki einu sinni að taka afstöðu (Forseti hringir.) með stjórnarskránni, ætlar forsætisráðherra ekki einu sinni að tala (Forseti hringir.) máli stjórnarskrárinnar núna, hæstv. forseti? (Gripið fram í: Hún er örugglega ósammála ...)