138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega ekki búið að fara yfir álit Sigurðar Líndals en við höfum það hér bara alveg á hreinu að forsætisráðherra vill ekki taka afstöðu með stjórnarskránni. Ekki var hægt að skilja orð forsætisráðherra með neinum öðrum hætti en svo.

Við skulum líka fara aðeins betur yfir ræðu forsætisráðherra. Rétt áðan sagði hún í ræðu sinni að Samtök atvinnulífsins og ASÍ kölluðu eftir því að fá lausn í málið. Það er skiljanlegt en ég trúi því ekki að hæstv. forsætisráðherra sé að fela ábyrgð sína bak við aðila vinnumarkaðarins í þessu máli. Það er deginum ljósara að það liggur ekkert lengur á, það liggur ekkert á, það hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem sagði: Geymum málið fram í febrúar.

Þess vegna segi ég: Stöndum í lappirnar, förum yfir stjórnarskrána, bíðum með málið, sameinumst í þinginu um það að standa vörð um hagsmuni okkar Íslendinga. Málið er ekki á forræði ríkisstjórnarinnar, málið er (Forseti hringir.) á forræði þingsins. Þess vegna á forsætisráðherra að taka (Forseti hringir.) höndum saman með okkur í stjórnarandstöðunni og (Forseti hringir.) standa vörð um hagsmuni okkar.