138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þessa ræðu. Ég náði að hlusta á meginþorra hennar frammi í herbergi. Mig langar að velta upp í fyrra andsvari einni spurningu sem hefur verið rædd svolítið í dag og hún er: Hver er munurinn á þeim lögum sem nú er vilji ríkisstjórnar að verði samþykkt — þau lög eru þannig að við munum borga upp í topp þá upphæð sem samið verður um — hver er munurinn á því að borga upp í topp samkvæmt þessum samningi og að láta málið fara fyrir dómstóla og verða þá dæmd til að borga skuldina upp í topp? Er einhver munur þar á? Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er sú, og það kann kannski að bera vott um einhverja tregðu hjá mér en ég sé ekki muninn á þessu, ég sé ekki muninn á því að taka á sig drápsklyfjar með slíkum vilja sem virðist vera á bak við málið og að gæta réttar síns og láta þá dæma sig til að taka á sig þessar klyfjar, því að þegar upp er staðið er það upphæðin sem skiptir máli í þessu, þ.e. upphæðin skiptir máli varðandi framtíð þjóðarinnar, hvort hún nær að klóra sig í gegnum þetta.

Meginmunurinn á þessu er vitanlega sá að ef við færum fyrir dómstóla með þetta eða biðum þess að á okkur yrði sótt, sem yrði væntanlega gert með þeim hætti, þá héldum við haus, þá stæðum við hnarreist og gætum barið okkur á brjóst og sagt: Ókei, við höfðum efasemdir um að við ættum að borga þetta, en það er búið að dæma okkur og að sjálfsögðu borgum við ef okkur ber skylda til þess.