138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðu hans. Það eru alltaf að koma fram ný rök í málflutningi stjórnarandstöðunnar og ekki veitir af því að stjórnarliðar halda því fram að við höldum hér alltaf sömu ræðuna. Þetta er alveg náttúrlega hreint með ólíkindum hvað er verið að reyna að gera lítið úr málflutningi okkar því að við erum sífellt að benda á nýja galla á þessu frumvarpi.

Mig langar til að spyrja þingmanninn um orð hæstv. forsætisráðherra hér áðan. Ég fór nú aðeins að kannast við hæstv. forsætisráðherra þegar hún stóð hér í stólnum, kom grá fyrir járnum, ísköld eins og grýlukerti, var með hótanir, hræðsluáróður og boðaði harðan frostavetur ef við mundum ekki samþykkja Icesave-frumvarpið sem nú liggur fyrir. Alveg hreint með ólíkindum. Hún hótaði því að yrði þetta ekki samþykkt mundum við ekki geta staðið við skuldbindingar okkar og afleiðingin yrði greiðslufall og væntanlega lækkað lánshæfismat Íslands, sveitarfélaga og stórfyrirtækja. Ég endurtek: Þetta lét hæstv. forsætisráðherra hafa eftir sér.

Svo virðist vera að hæstv. ríkisstjórn átti sig ekki á því að til þess að hanga í því greiðslumati sem Ísland hangir nú í þarf ekki að samþykkja Icesave-samninginn. Þetta snýst um að við stöndum við skuldbindingar okkar en ekki það að við dettum niður í ruslflokk. Þetta snýst ekki um það að við skuldsetjum okkur úr hófi fram þannig að við höldumst í BBB mínus.

Það kom fram hér í máli hv. þm. Þórs Saaris að skatttekjur tæplega 80 þúsund Íslendinga fari í greiða vextina af Icesave og því langar mig að spyrja þingmanninn: Hverjir eiga að greiða vextina af Icesave ef hér (Forseti hringir.) verður mikill landflótti eins og þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni?