138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þessi nálgun er áhugaverð, um það hvort einhverjir baksamningar séu í gangi sem ekki eru lagðir hér á borðið. Það kæmi svo sem ekki á óvart að ríkisstjórnin væri ekki að leggja alla söguna á borðið. Það er svo sem í samræmi við annað og hefur gerst áður í þessu ferli og í öðrum málum. Nú síðast bréfin sem komu frá Bretlandi og Hollandi. Af hverju tekur það marga daga að koma þessum upplýsingum inn í þingið og gerist ekki fyrr en fjölmiðlar fara að spyrjast fyrir um þetta? (VigH: Eins og venjulega.) Þingmenn eru ítrekað búnir að spyrjast fyrir um þetta og svo þegar þetta kemur er þetta ekki lagt fram. Ríkisstjórnin hefur ekkert frumkvæði að því að upplýsa um þessa þætti, vill keyra hér allt í gegn, helst í skjóli nætur. Það er ekki ólíklegt að það séu einhverjir samningar sem eru til sem við höfum ekki séð, mér finnst það áhugaverð nálgun.

Hver á svo að standa undir þessu öllu saman? Það er nefnilega mergurinn málsins, um það snýst þetta allt saman. Þetta snýst allt um íslenskt atvinnulíf, þetta snýst um framleiðslu, verðmætasköpun og útflutningsafurðir, virðulegi forseti, nýtingu náttúruauðlinda landsins, og þar er ríkisstjórnin stöðugt að setja þröskulda í veg fyrir að menn geti stundað almenna starfsemi, geti treyst þessu samfélagi.

Hvernig dettur mönnum það í hug að með því að samþykkja Icesave-samninginn komi erlend fyrirtæki í erlenda fjárfestingu í röðum inn í landið? Það er búið að búa þannig um hnútana núna, virðulegi forseti, að ekkert fyrirtæki horfir til okkar. Við erum bara kategórískt með einhverjum bananalýðveldum þar sem er ekki hægt að treysta stjórnarfarinu, þar sem er ekki hægt að treysta skattheimtu eða hvernig við meðhöndlum þau fyrirtæki sem vilja koma inn í landið.

(Forseti hringir.)

Það er talað um að nýfjárfesting (Forseti hringir.) verði ekki skattlögð, hún verði undanþegin. (Forseti hringir.) Er álverið við Reyðarfjörð ný fjárfesting eða gömul? (Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutímann.)