138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um tengsl, eins og ég fór yfir í ræðu minni, ESB-umsóknarinnar og þessa máls. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur kallað fram í að það sé rangt. Þá hvet ég hv. þingmann til að koma sér á mælendaskrá og sýna fram á það (SER: Í hvorum arminum ert þú?) með rökum að það sé ekki rétt vegna þess að það hefur verið sagt við mig beint af breskum og hollenskum þingmönnum. (SER: Icesave skaðar að sjálfsögðu aðildina að ESB.) Icesave skaðar að sjálfsögðu aðild að ESB, hann viðurkennir það.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var nefndur til sögunnar og ég tek undir það að hann ætti að koma og tjá skoðanir sínar um málið og ég vek athygli á því — ég er búin að vera með dálítinn kladda í gangi — að hvorki á sumarþingi né á þessu þingi hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stigið í pontu út af þessu ágæta máli, mér finnst alveg kominn tími til þess. Það væri mjög gott ef hægt væri að fá hann hingað til að komast að því hvað honum finnst um þau tengsl þó að ekki væri nema það.

Tel ég að hæstv. ráðherrar viti eitthvað meira um þetta mál en við, er eitthvað meira sem liggur að baki? Já, ég held það, það hlýtur að vera vegna þess að það kom fram við 1. umr. í máli hæstv. forsætisráðherra að þegar eftir því var leitað og kallað eftir skýrum svörum þvældist hún dálítið með það en jánkaði því svo á endanum að málið væri komið í skýran og endanlegan búning. Þá held ég að það sé þannig að loforð hafi verið gefin af hálfu íslenskra stjórnvalda um að engu verði breytt. Mér finnst þetta vera blekkingaleikur og mér finnst við vera höfð að leiksoppi (Forseti hringir.) með þetta vegna þess að þau hafa ekki getað hrakið þá fullyrðingu.