138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að draga þetta fram, því að það eru líklega helstu talsmenn þess að gera þennan samning, Samfylkingin, sem stóðu að því að fara með neyðarlögin fyrir þingið og það er sérstakt að þeir ætli ekki að fara eftir þeim sjálfir.

Ég vil þó koma inn á eitt og það er sú mikla óvissa sem ríkir um framtíðina, ekki síst í ljósi þess að hér á þingpöllunum er hópur af ungu fólki sem mun erfa landið og taka við þessu ólukkans máli í framtíðinni. Mig langar að spyrja hæstv. þingmann hvort það sé forsvaranlegt að leggja á framtíðina, leggja á þetta unga fólk alla þá óvissu sem ríkir um lykilþætti í þessu máli. Er það ekki rétt að það sé óvissa um efnahagsfyrirvarana, það sé óvissa um hvernig okkur mun ganga í framtíðinni efnahagslega? Er ekki óvissa um lagalega þáttinn í þessu frumvarpi varðandi þennan samning? Er ekki óvissa um það hvernig erlendu samningsaðilar okkar muni bregðast við?

Fyrir mér er þessi samningur óútfylltur tékki á framtíðina sem einhverjir aðrir munu vilja borga. Þetta er eins og við höfum heyrt í nefndum Alþingis þegar verið er að fjalla um fjárlögin. Það er jafnvel heimildarákvæði frá fjármálaráðuneytinu til kaupa á, ég nefni sem dæmi hlut í orkufyrirtækjum eða einhverju slíku, opið heimildarákvæði upp á tugi milljarða og því á bara að mæta svo í fjáraukalögum ef það verður nýtt. Mér finnst eins og hæstv. ríkisstjórn sé að leika sama leikinn varðandi þennan ólukkans samning og við þetta hryllilega mál, sé að gefa einhvers konar fyrirheit eða gefa út heimild á framtíðina, að framtíðin eigi að borga.

Ég segi það og tek undir þau orð sem komu fram hjá formanni Sjálfstæðisflokksins í dag, að það er miklu betra að láta dæma sig til að borga í íslenskum krónum en að eyða öllum þessum fjármunum í að borga í erlendri mynt.