138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í stjórnarskránni og í þingsköpum er þess getið að ljúka skuli afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót. Það er sá tímapunktur sem við höfum við að miða og við verðum að stefna að. Á dagskrá í dag eru fjáraukalög, ráðstafanir í skattamálum og tekjuskattur sem eru allt mál sem tengjast fjárlögum og þarf að afgreiða fyrir áramót. Við eigum von á mörgum málum frá ríkisstjórninni í skattamálum sem þarf að vinna vandlega í nefndum og við erum komin í algjöra tímaþröng, frú forseti.

Þess vegna spyr ég, frú forseti: Er það óbilgirni forseta, ég trúi því nú varla, að vilja halda þessu máli til streitu þegar ríkisstjórninni liggur svo mikið á að afgreiða önnur mál sem verður að afgreiða fyrir áramót?

Mér sýnist að það mál sem við erum að ræða og verður rætt hér í allan dag, um ríkisábyrgð á lántökum tryggingarsjóðs, sé ekki mjög brýnt mál og það er búið að færa rök fyrir því að það sé ekki mjög brýnt að afgreiða það. Hins vegar er stjórnarskrárbundið og þingskapabundið að við afgreiðum fjárlög.