138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil beina því til hæstv. forseta að fresta fundi þangað til forsætisráðherra kemur til umræðunnar í salinn og formaður fjárlaganefndar sem ber þetta mál uppi. Það er óforsvaranlegt að við ræðum þessi mál að þeim fjarstöddum og því fer ég fram á það að frú forseti fresti þessum fundi þangað til þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra komi hér og axli þær skyldur sem felast í því að sitja á Alþingi Íslendinga.

Í öðru lagi spyr ég líka hæstv. forseta og endurtek spurningu mína um það: Hversu lengi megum við búast við að starfa fram eftir kvöldi eða fram eftir nóttu? Það stendur til að funda snemma í fyrramálið og mér er til efs að allt það ágæta unga fólk sem er uppi á pöllunum muni bera mikla virðingu fyrir þeim starfsaðferðum sem hér eru viðhafðar þegar við vitum ekki (Forseti hringir.) einu sinni hversu lengi við munum vera hér og hvort við munum jafnvel þurfa að funda fram undir morgun þegar nýr þingfundur hefst. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)