138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki enn fengist svar við því hvers vegna ekki er hægt að bregðast við þeirri sanngjörnu tillögu og ósk okkar í stjórnarandstöðunni um að það verði einfaldlega gerð breyting á þeirri dagskrá sem nú liggur fyrir og tekin frekar fyrir þau mál sem eru virkilega knýjandi fyrir ríkisstjórnina að fá afgreidd. Það hafa allir skilning á því, hversu ómöguleg sem málin kunna að vera að öðru leyti, að þessi mál þurfi að afgreiðast fyrir áramótin. Það hefur margoft komið fram af okkar hálfu að við værum tilbúin til að greiða fyrir þeim störfum eins og við gætum. Það er hins vegar ekkert sem liggur á varðandi þær Icesave-tillögur sem við erum að ræða um eða þetta frumvarp, það hefur margoft komið fram að það eru engar nauðir sem rekur menn til að ljúka því máli. Þess vegna væri langsamlega eðlilegast, í anda þess að reyna að greiða fyrir þingstörfum og greiða fyrir því að ljúka því sem mestu máli skiptir, að breyta einfaldlega dagskránni núna eins og við höfum haft uppi óskir um. Það hafa ekki komið nein skynsamleg svör við því hvers vegna ekki er hægt að verða við þessari einföldu og sanngjörnu beiðni.