138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég óska skýrari svara við því hversu lengi fundur muni standa hér í kvöld og hvort það sé rétt að hann komi til með að standa inn í nóttina. Ég á sæti í iðnaðarnefnd og þar er búið að boða fund klukkan hálfníu í fyrramálið þar sem þingmenn þurfa að mæta og þar á að fjalla m.a. um álver í Helguvík. Ég á eftir að undirbúa mig undir þann fund þar sem dagskráin var ekki send út fyrr en seinni partinn í dag, og ef maður þarf að mæla sér mót við fólk er betra að maður viti hvort það verði klukkan fjögur í nótt eða klukkan tvö í nótt. Það væri mjög æskilegt að fá aðeins nánari upplýsingar um það.

Ég vil jafnframt hvetja menn til þess að tala af varúð við að nota orðið málþóf hér um þá miklu og góðu umræðu sem hefur farið fram undanfarna daga. Ég hef haldið eina ræðu í þessu máli og það var milli kl. 11 og 12 á þriðjudagskvöldið og óskandi að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefði verið í salnum og hlustað á þá ágætu ræðu. (Gripið fram í.) En þar sem hann var ekki hér, (Gripið fram í.) get ég glatt hann með (Gripið fram í.) því að ég ætla að halda aðra ræðu á eftir og þá getum við vonandi átt orðastað um þetta mikilvæga mál. (BjörgvS: Frábær ræða hjá þér, meiri háttar ræða.)