138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er orðin ágæt sýning í meðferð liðarins fundarstjórn forseta. Menn eru búnir að hlusta á þau sjónarmið sem þingmenn (Gripið fram í: Þetta er gagnlegur málflutningur.) hafa komið á framfæri. Við formenn þingflokka ræddum þetta á fundum með forseta fyrr í kvöld, um skipulag þingfundarins. Dagskrá liggur fyrir og það er auðvitað eðlilegt að henni sé fylgt og haldið áfram umræðu samkvæmt henni. Það liggur líka fyrir að formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram dagskrártillögu sem samkvæmt þingsköpum verður tekin til afgreiðslu í lok þingfundar og (Gripið fram í.) það verður bara að koma í ljós hvernig því máli vindur fram.

Ég vil líka segja að mér finnst menn gera býsna mikið úr því að heimta það að tilteknir ráðherrar séu viðstaddir umræðuna, jafnvel þingmenn. Málið er komið til (Gripið fram í.) þingsins og er á valdi þingsins að fjalla um. Hér hefur forusta fjárlaganefndar verið viðstödd (Forseti hringir.) umræðu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið hér meira og minna. Ég held því að menn hafi ekki getað og geti ekki kvartað yfir því að ekki sé fylgst með þeirri umræðu sem fram fer um það mikilvæga mál sem er á dagskrá.