138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þau eru allt að því harmræn örlög velferðarstjórnarinnar. Í fyrsta lagi að leggja til skerðingu á jafnrétti kynjanna með því að skerða Fæðingarorlofssjóðinn, en það er annað mál. En svo er það hitt að halda hér fundi kvöld eftir kvöld í röð, sem er afskaplega fjölskylduóvænt. (Gripið fram í: … velferð.) (Gripið fram í: Einstæðir foreldrar …) Ég get ímyndað mér að fólk sem á börn heima — þetta er ekki þægileg og góð staða.

Síðan er lagt til að fundir verði í fyrramálið í fjórum nefndum kl. 8.30. Þingmenn þurfa að undirbúa sig fyrir þá. Þetta jaðrar allt að því við vökulögin frá 1930, sem er alveg ótrúlegt að jafnaðarmannaflokkarnir skuli standa að því að brjóta með þessum hætti, fyrir utan þau atriði sem ég nefndi áðan, um að gera í rauninni þingmannsstarfið ómögulegt fyrir fólk sem á lítil börn. (Gripið fram í.)