138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þessi umræða er einkennileg um hvort hér sé eitthvert málþóf í gangi. Mér finnst fjarri lagi að hægt sé að ræða málið á slíkum nótum. Ég er til að mynda ekki búin með fyrstu ræðu mína, á hana eftir og flyt hana væntanlega annaðhvort í kvöld eða á morgun.

Ég man alveg eftir því að mál sem greinilega vega þyngra á metunum hjá þingmönnum stjórnarmeirihlutans, RÚV-málið svokallaða, þegar verið var að breyta RÚV í ohf., þá voru þingmenn stjórnarandstöðunnar hér ekki bara einn dag, ekki tvo daga, ekki þrjá daga, heldur fjóra eða fimm daga þing eftir þing. Og svo ætla menn að fara að segja að Icesave sé eitthvað minna mál. Ég held menn verði nú aðeins að vakna. Ég vil beina því sérstaklega til forseta — því forseti hefur heimild til þess að breyta sjálfur dagskrá þingsins. Hæstv. forseti getur núna tekið upp á því og sýnt þá framsýni að breyta dagskrá þingsins og ég hvet forseta til að gera svo, til þess einmitt að liðka fyrir þingstörfum (Forseti hringir.) og koma þeim málum á dagskrá sem hæstv. fjármálaráðherra eru svo kær, þ.e. hækka skatta.