138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

(BJJ: Og styður nú okkar málflutning.)

Frú forseti. Það ætla ég svo sannarlega að gera.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé réttur þingmanna að halda ræður, langar ræður. Það er alveg rétt sem komið hefur fram að það er ein leið sem þingmenn hafa til að ná fram því sem þeir vilja, þ.e. að koma fram skoðunum sínum, undirstrika þær, og eftir atvikum reyna að beita því til þess að koma í veg fyrir samþykkt mála. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég held þessa ræðu. Ég hef margsinnis sagt þetta. Ég var ekki mjög hrifinn af því þegar þingsköpunum var breytt á sínum tíma eins og þá kom fram.

Hins vegar eigum við að kalla hlutina því sem þeir eru réttum nöfnum. Auðvitað er þetta málþóf. (Gripið fram í: Nei, nei.) Þetta er málþóf sem Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst stendur fyrir, teymir vesalings litla Framsóknarflokkinn með sér (Gripið fram í.) og málþófið er meira að segja þannig að þingmenn koma upp í andsvör við eigin flokksmenn. Auðvitað er þetta málþóf og ekkert annað en tilraun stjórnarandstöðunnar, einkum Sjálfstæðisflokksins, til þess að tefja málið.

En ég spyr hv. þingmenn: Af hverju má málið ekki koma til (Forseti hringir.) lýðræðislegrar afgreiðslu og atkvæðagreiðslu í þinginu? (Gripið fram í.) Eru hv. þingmenn hræddir við það? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð)