138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er kannski næstreyndasti málþófsmaðurinn sem nú er í salnum. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Og ég hef tekið þátt í málþófi mörgum sinnum á tólf ára stjórnarandstöðutíð minni. Hverjir voru það þá sem komu og töldu það einhverja mestu misþyrminguna á lýðræðinu sem hægt var að hugsa sér? Það var t.d. hv. þm. Birgir Ármannsson sem stóð sig einkar vel í því að berja á stjórnarandstöðunni og vanda um við hana. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei haldið lengri en fjögurra og hálfs tíma ræðu, hv. þingmaður.

En hins vegar verð ég að segja að ég vorkenni þingmönnum bara ekki neitt þó þeir spenni sig hérna eina eða tvær nætur. Ef ég má leiðbeina hæstv. forseta um fundarstjórn hvet ég hana til þess að slíta fundi ekki fyrr en kl. sex í fyrramálið, það verður enginn almennilegur þingmaður fyrr en hann er búinn að vaka eina nótt og sjá sólina rísa aftur út um glugga þinghússins. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Hér kemur fram tillaga um að lengja þann tíma sem ég lagði til (Forseti hringir.) til klukkan ellefu, og ég hef líka verið hér á fundi til kl. hálf ellefu einn morguninn. Það var gleðilegur morgunn.