138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Miðað við þá umræðu sem farið hefur fram í dag og var hér áðan, verð ég velta því fyrir mér hvort ég eigi að byrja ræðu mína á því að segja að nú hefst mitt málþóf eða eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, nú er minn tími kominn. Ég held ég velji það frekar, frú forseti, að nota það að nú sé minn tími kominn til að segja mína skoðun á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Það er alveg ljóst að skoðanir mínar og m.a. þeirra sem hafa talað í dag, fara að mestu saman. Ég er á öndverðum meiði við þetta frumvarp og hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði fyrir því. Ég er líka á öndverðum meiði við hv. formann fjárlaganefndar og því sem hann sagði hér en ég tel mig, frú forseti, hafa jafnan rétt sem þingmaður til að segja mína skoðun og mun gera það hér.

Við ræðum hér enn og aftur mál sem tengjast Icesave-reikningunum. Við ætlum að ræða um ríkisábyrgð á þeim reikningum, mál sem verður íslenskri þjóð örugglega eitt það erfiðasta um ókomna tíð. Það ríkir engin sátt um þetta mál, frú forseti, hvorki á þinginu né í samfélaginu sjálfu.

Menn greinir á um hvort ríkinu beri í raun að greiða og veita ríkisábyrgð á þessum reikningum. Fólkið í samfélaginu spyr af hverju það eigi að greiða skuldir þeirra sem stofnuðu Icesave, einkaaðila úti í bæ, sem fóru illa með það frelsi sem þeir fengu þegar þeir stunduðu sína bankastarfsemi. Ekki er nema von að fólk spyrji og ekki er nema von að fólk sé frekar dapurt og reikult vegna þess að það ber engum saman í þessu máli.

Við ræddum hér á sumarþingi frumvarp hæstv. fjármálaráðherra. Því var gjörbreytt í meðförum þingsins. Menn töldu þá að þeir hefðu komist að niðurstöðu um lagalega og efnahagslega fyrirvara sem þjóðin gæti sætt sig við, sem íslenska ríkið gæti greitt. Við töldum að í þessum fyrirvörum, efnahagslegum og lagalegum, fælist ákveðin sáttavilji af hálfu Alþingis Íslendinga til þeirra sem setja á okkur óskiljanlega ábyrgð. Þeir aðilar, Hollendingar og Bretar, sögðu nei, takk við þeim fyrirvörum sem Alþingi Íslendinga gerði.

Í raun þætti mér, frú forseti, að málið ætti þá að hefjast að nýju frá grunni, en ekki það að hæstv. ríkisstjórn ákveði að fara á svig við vilja Alþingis frá því 28. ágúst með lögum nr. 96/2009, sem urðu að lögum eins og sagt er 2. september. Ríkisstjórnin fer á svig við þann vilja Alþingis sem settir voru í fyrirvörunum, efnahagslegu og lagalegu, og semur upp á nýtt við Breta og Hollendinga. Í mínum huga, frú forseti, hafði ríkisstjórnin ekkert samningsumboð frá Alþingi. Hún hafði það umboð að leggja þessa fyrirvara fyrir Breta og Hollendinga, þeim til samþykktar eða synjunar, en ríkisstjórnin ákveður að semja upp á nýtt, breyta því sem Alþingi gerði að lögum frá 28. ágúst, og hún fer á svig við löggjafarvaldið. Það er umhugsunarefni því að það er í annað skipti á skömmum tíma sem ríkisstjórnin gerir það. Ríkisstjórnin gerði það með undirritun samnings með fyrirvara um samþykki Alþingis sem lagður var fram 5. júní. Hún gerir það aftur nú þegar hún hunsar vilja Alþingis og skrifar á ný, reyndar með fyrirvara um samþykki Alþingis, upp á þann viðaukasamning sem við erum að fjalla um hér.

Það virðist líka vera svo, frú forseti, að vegna þeirrar umræðu sem við áttum hér í sumar, þyki meiri hlutanum í hv. fjárlaganefnd í raun ekki ástæða til að taka frumvarpið til efnislegrar umræðu eins og gera ber. Þetta er nýtt frumvarp, þó svo að fyrra frumvarpið hafi verið ítarlega rætt er hér um nýtt frumvarp að ræða og það á að fá efnislega vandaða umræðu, sem það ekki fékk. Fjárlaganefnd óskar eftir því við efnahags- og skattanefnd að hún skoði og taki til endurskoðunar og skoðunar efnahagslega þætti samninganna við Bretland og Holland, fari yfir þá og veiti álit. Efnahags- og skattanefnd gerir það, frú forseti, það verður reyndar með þeim hætti að það verða til fleiri en eitt álit vegna þess að stjórnarþingmenn gátu ekki komið sér saman um sameiginlegt álit í efnahags- og skattanefnd. Hvað gerir hv. fjárlaganefnd? Jú, þessi vönduðu álit eru lögð fram en þau eru ekki rædd. Þau eru ekki rædd í fjárlaganefnd en þau fylgja meirihlutaáliti fjárlaganefndar sem fylgiskjöl, en fjárlaganefnd sjálf gerir ekkert með þau.

Það er því ekkert skrýtið þó að stjórnarþingmenn segi í 2. umr. þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar ræða þessi mál að við stundum málþóf vegna þess að það er ljóst, frú forseti, á afgreiðslu fjárlaganefndar að meiri hluti ríkisstjórnarflokkanna er búinn að koma sér saman um að samþykkja þetta frumvarp, að samþykkja þessar byrðar sem verið er að leggja á íslensku þjóðina.

Það er líka, frú forseti, umhugsunarefni fyrir löggjafann, fyrir Alþingi Íslendinga, að framkvæmdarvaldið fer gegn löggjafarvaldinu eins og ég nefndi áðan og undirritar samninga sem eru í grundvallarandstöðu við Alþingi. Það er grafalvarlegt mál vegna þess að við höfum enn og ég leyfi mér að segja, frú forseti, við höfum enn a.m.k. þrískiptingu valds; framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Það kann að vera að einhverjum detti í hug að breyta því en það er enn þá þannig og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins gerir ráð fyrir því. Þess vegna er það dapurt hvernig framkvæmdarvaldið fer fram gegn löggjafarvaldinu. Það er almennt talið í íslenskum stjórnskipunarrétti að löggjafinn, Alþingi Íslendinga, þurfi ekki að sæta neinum takmörkunum af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er ekki svo í þessu frumvarpi, frú forseti. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þingmenn hvernig Alþingi á að bregðast við, hvernig löggjafinn á að bregðast við þegar framkvæmdarvaldið fer með þeim hætti sem við höfum nú séð í tvígang á svig við vilja Alþingis.

Það er líka verulegt umhugsunarefni, frú forseti, að ekki aðeins ákveður framkvæmdarvaldið að ganga hér gegn vilja Alþingis, heldur hefur framkvæmdarvaldið í því frumvarpi sem nú er til umræðu ákveðið að setja dómsvaldinu á Íslandi verulegar skorður á grundvelli samninga sem gerðir eru við erlend ríki til lúkningar á umdeildri kröfu í Icesave-málinu. Ríkisstjórn Íslands gefur íslenskum dómstólum í þessu frumvarpi fyrirmæli um að leita til erlendra dómstóla og fara og ég ítreka, frú forseti, og fara að ráðgefandi niðurstöðu þeirra í dómsniðurstöðum sínum. Framganga framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu og dómsvaldinu í því frumvarpi sem hér er til umræðu er algerlega óásættanleg.

Það hefur verið hægt að víta þingmenn fyrir orðræðu sína í þingstól og ræðustól á Alþingi en það erfitt að víta framkvæmdarvaldið þegar það með þeim hætti sem birtist hér í frumvarpi til laga gengur fram gegn löggjafarvaldi og dómsvaldi. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, það er verulegt umhugsunarefni, bæði fyrir löggjafann og dómsvaldið, hvernig framkvæmdarvaldið gengur fram.

Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þeim viðaukasamningum sem við erum að skoða og ætlast er til að Alþingi Íslendinga samþykki — og allar líkur eru á að meiri hluti stjórnarflokkanna sé búinn að koma sér saman um að afgreiða — eru hinir efnahagslegu fyrirvarar sem gerðir voru á sumarþingi og samþykktir með lögum þann 28. ágúst sl., orðnir að engu. 6% greiðsluþakinu sem átti að taka jafnt til vaxtagreiðslu og greiðslu á höfuðstól hefur nú verið umbylt. Verði frumvarpið að lögum skulu vextir greiddir að fullu óháð efnahagslegu ástandi á Íslandi en 6% greiðsluþakið taki einungis til höfuðstóls greiðslna. Hér er ekki tekið tillit til hinna fordæmalausu aðstæðna á Íslandi sem urðu við hrun bankanna, meginforsendur þess sem við samþykktum í sumar eru brostnar.

Ég leyfi mér hér, frú forseti, að vitna í Gunnar Tómasson hagfræðing, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, felst höfnun af hálfu ríkisstjórnar Íslands, Bretlands og Hollands á Brussel-viðmiðunum frá 14. nóvember 2008 þar sem slegin var skjaldborg um endurreisnarmöguleika íslenska hagkerfisins á komandi tíð. Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 96/2009 voru viðmiðin sögð vera forsenda fyrir veitingu ríkisábyrgðar, forsenda sem ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Hollands hafa sameinast um að virða að vettugi og bjóða nú Alþingi að gera slíkt hið sama.“

Frú forseti. Fleiri hafa velt fyrir sér þeim byrðum sem leggja á á íslenska þjóð með því frumvarpi um ríkisábyrgð sem hér liggur fyrir, þar á meðal eru tveir þekktir bandarískir hagfræðingar, James K. Galbraith og William K. Black. Þeir segja m.a. um þá skýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sent frá sér þar sem talið er að Ísland geti risið undir þeim byrðum sem á okkur eru settar, með leyfi forseta, í íslenskri þýðingu:

„Ísland er lítið land með takmarkaðan fjölda vinnufærra einstaklinga. Við Alþingi blasir nú lykilspurning hvort það sé raunhæft að ætla að þjóðin sætti sig við þær byrðar sem Íslandi er nú fyrirskipað að axla.“

Þeir halda áfram, frú forseti, og segja:

„Við erum ekki í stakk búnir að svara þessari spurningu, við setjum hana einungis fram, en ef svarið er neikvætt er ekki aðeins íslenska hagkerfið í húfi heldur framtíð Íslands sem starfhæf efnahagsheild.“

Er nema von, frú forseti, að við þingmenn undrumst og veltum fyrir okkur hvers vegna ríkisstjórn Íslands leggur fram þetta frumvarp og ætlar sér að leggja þær byrðar á íslenska þjóð sem við blasa þegar menn sem hafa góða og gilda menntun til að vega og meta, koma fram með athugasemdir eins og hér eru.

Svo ég vitni aftur, frú forseti, í Gunnar Tómasson hagfræðing, segir hann:

„Það væri atlaga að almannahag af hálfu Alþingis að láta alvarlegar athugasemdir þeirra við skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem vind um eyrun þjóta.“

Mér er spurn, frú forseti: Erum við á réttri leið með það mál sem við nú ræðum? Ég held ekki. Þar greinir mig á við stjórnarsinna, þar greinir mig á við ríkisstjórnina sem leggur fram þetta frumvarp, þar greinir mig á við meiri hluta fjárlaganefndar og það virðist sem mig greini á við meiri hluta stjórnarþingmanna vegna þess að ég tel, frú forseti, að ríkisstjórn Íslands, sú sem nú situr, hefði aldrei, og ég ítreka, hefði aldrei lagt þetta frumvarp fram í þeirri mynd sem það er nema að vera búin að tryggja sér meiri hluta fyrir því. Hún hefði aldrei ætlað sér að veita þinginu heimild til að fara inn í það frumvarp sem hér liggur fyrir og breyta því á sama hátt og því frumvarpi sem lagt var fram á vorþinginu var breytt. Það stóð aldrei til.

Þess vegna má segja, frú forseti, að það að reyna að standa í ræðustól á Alþingi og hafa skoðanir á því að það Icesave-mál sem við fjöllum um hér, ríkisábyrgðin, í raun má ætla sem svo að það sé tímaeyðsla af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar vegna þess að það er búið að tryggja meiri hlutann og þingmenn stjórnarinnar ætla sér ekki að taka þátt í þessu nema til að mæra þetta frumvarp. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Við þingmenn í stjórnarandstöðu höfum aðra skoðun og við höfum fullan rétt og við látum hana í ljós. Við ætlum að reyna að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum, að þessar byrðar verði lagðar á íslenska þjóð.

Ekki aðeins, frú forseti, er efnahagslegum fyrirvörum breytt í þessum viðauka heldur er líka tímabinding ríkisábyrgðar felld út. Hún er nú ótímabundin, hún var bundin til ársins 2024 og er enn í gildi samkvæmt gildandi lögum. Þetta þýðir, frú forseti, að verði þetta frumvarp að lögum þar sem ríkisábyrgðin, tímabinding hennar er felld úr gildi, gætu margar kynslóðir Íslendinga orðið ábyrgar fyrir Icesave-skuldbindingum en ekki bara eins og hæstv. fjármálaráðherra segir: Við ætlum ekki að varpa þessum kaleik yfir á komandi kynslóðir, við ætlum að klára þetta núna. Það er ekki verið að klára neitt núna, það er verið að setja byrðar á íslenska þjóð með þessu frumvarpi langt, langt fram í tímann.

Íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður þó að þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið beri ekki ábyrgð á innstæðunum. Þetta hljómar sérkennilega, frú forseti, en þannig er það nú samt. Með leyfi forseta, les ég það sem stendur á bls. 16 í áliti 3. minni hluta fjárlaganefndar og haft er eftir þeim ágætu mönnum Stefáni Má Stefánssyni og Lárusi L. Blöndal þar sem þeir segja m.a.:

„Íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þó þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisábyrgð vera bundin þeim fyrirvara að viðræður fari fram milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif slíkrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Bretar og Hollendingar eru auðvitað ekki bundnir af þessum ákvæðum og samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð íslenska ríkisins skilyrðislaus eins og áður sagði. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hvert framhald málsins verður. Niðurstaða dómstóla breytir því engu um Icesave ábyrgðina verði þetta frumvarp samþykkt nema Hollendingar og Bretar samþykki það.“

Frú forseti. Stefán Már Stefánsson og Lárus L. Blöndal segja einnig:

„Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur gert ráð fyrir að ríkisábyrgðin takmarkist við að úthlutun og uppgjör á eignum Landsbankans fari fram samkvæmt íslenskum lögum eins og þau verða skýrð af dómstólum landsins. Látið er duga að setja inn í viðaukasamninginn við Breta að þeim sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda kunni að leita úrskurðar um hvort hans kröfur gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána. Eins og áður segir eru skuldbindingar íslenska ríkisins hins vegar skilyrðislausar samkvæmt lánasamningnum og við túlkun hans gilda bresk lög. Af þessum sökum verður ekki séð að neitt lögfræðilegt hald sé í þessu ákvæði viðaukasamningsins við Breta að þessu leyti og fyrirvarinn því orðinn marklaus gagnvart þeim.“

Frú forseti. Þetta er ívið skárra í samningnum við Hollendinga vegna þess að þar er því haldið opnu að hægt sé að bera málið undir íslenska dómstóla en með þeim fyrirvara þó að niðurstaða viðkomandi dómstóls sé ekki í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem nauðsyn ber til að afla. Réttur íslenska ríkisins, réttur íslensku þjóðarinnar, sem við alþingismenn og ríkisstjórnin erum fulltrúar fyrir, er því algerlega fyrir borð borinn í þessu frumvarpi. Það er með ólíkindum að íslensk ríkisstjórn skuli leggja fram frumvarp með þessum hætti.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að ekki hafi verið komist lengra með Breta og Hollendinga. Frú forseti. Foreldrar láta ekki alltaf undan ýtrustu kröfum í umræðu við börnin sín. Foreldrar reyna að standa í fætur og leiðbeina og gera það sem þeir telja skynsamlegast fyrir börn sín. Með fullri virðingu fyrir ríkisstjórninni, með fullri virðingu fyrir þeirri samninganefnd sem fór þessa sneypuför, þá er það frumvarp sem hér liggur fyrir og viðaukar við þá samninga sem lagðir voru hér fram og undirritaðir í vor og aftur í nóvember, óásættanlegt fyrir íslenska þjóð. (Gripið fram í.)

Það hefur heldur ekkert breyst, frú forseti, í þeim lánasamningum sem hér liggja fyrir á milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi og Íslands annars vegar og Breta eða Hollendinga hins vegar, um ábyrgð og skaðleysi. Þar stendur enn þá, frú forseti, það sem áður stóð og hefur ekkert breyst. Við höfum áður rætt um þetta skilyrðislausa og óafturkræfa sem íslenska ríkið skuldbindur sig til, eins og stendur hér í grein 6.2, Ábyrgð og skaðleysi, með leyfi forseta, í b-lið:

„Íslenska ríkið skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til að greiða lánveitanda þegar krafa er gerð um slíkt þær fjárhæðir sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir ekki á gjalddaga samkvæmt eða í tengslum við fjármálaskjöl sem hann á aðild að eins og það væri frumlántakandi.“

Það stendur líka í 6.6, Milliliðalaust úrræði, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið fellur hér með, með óafturkræfum hætti, frá hverjum þeim rétti sem það kann að hafa til að fara fram á að lánveitandi grípi áður til aðgerða gegn öðrum aðila eða framfylgi öðrum réttindum eða gangi að tryggingum eða krefjist greiðslu kröfu gagnvart öðrum aðila áður en hann gerir kröfu á að íslenska ríkið samkvæmt þessari grein. Þessi eftirgjöf réttar gildir þrátt fyrir öll lög eða ákvæði fjármálaskjals sem kunna að kveða á um annað.“

Frú forseti. Er nema von að það setji að venjulegum þingmanni agnarlítinn ugg um það að hér sé verið að leggja til eitthvað svo sérkennilegt og svo makalaust af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi Íslendinga og gagnvart þjóðinni að maður staldri við? Hér er skaðleysi og ábyrgð lánveitendanna, Breta og Hollendinga, íslenska ríkið firrir þá allri ábyrgð á öllu, tekur allt á sig frá A til Ö. Óafturkallanlegt og skilyrðislaust til þess að halda, frú forseti, lánveitendum skaðlausum þegar krafa er gerð um slíkt vegna alls kostnaðar, taps eða skaða sem lánveitandinn kann að verða fyrir ef einhver af þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið ábyrgist samkvæmt fjármálaskjölum er eða verður óframfylgjanlegt, ógild eða ólögmæt. Fjárhæðin sem kostnaðurinn, tapið eða skaðinn nemur skal vera jafnhá þeirri fjárhæð sem lánveitandinn hefði ella átt rétt á að endurheimta.

Frú forseti. Þeir samningar sem hér liggja fyrir við Breta og við Hollendinga um ríkisábyrgð á lánum til þess að hægt sé að greiða innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi það sem þeir lögðu inn á Icesave-reikninga Landsbanka Íslands, eru óásættanlegir í þeirri mynd sem þeir eru hér og með þeim fyrirvörum sem eru settir í þessu nýja frumvarpi. Þeir eru óásættanlegir fyrir íslenska þjóð, algerlega óásættanlegir. Það verður, frú forseti, að velta upp þeirri spurningu: Hvernig stendur á því að samninganefnd sem fer fyrir Íslands hönd gerir ekki meiri kröfur á hendur Bretum og Evrópusambandinu vegna þeirrar ábyrgðar sem þeir bera? Það er öllum ljóst að bankahrunið sem varð á Íslandi í október er fordæmislaust. Það hefur hvergi skeð í hinum vestræna heimi að allir bankar í einu landi hafi hrunið svo að segja á sömu viku.

Það er algerlega ljóst í mínum huga að sú tilskipun sem þessi tryggingarsjóður byggir á, tilskipunin frá Evrópusambandinu, er meingölluð. Og það að láta meingallaða tilskipun Evrópusambandsins kúga eina þjóð eins og hér er verið að gera við Íslendinga er líka algerlega óásættanlegt. Það er ekki hægt að sætta sig við að hræðsla Englendinga, Bretanna í heild sinni, Hollendinga og annarra Evrópuþjóða í hruninu í október í fyrra, að ótti þeirra við áhlaup á banka í eigin landi geri það að verkum að íslensk þjóð sé knúin og beygð til að bera ein og sér þá ábyrgð sem felst í Icesave-reikningunum vegna þess að við erum aðilar að EES og tilskipunin er eins og hún er.

Frú forseti. Það hlýtur að vera leið, önnur leið út úr þeim vanda sem við blasir en sú að sætta sig við að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir, þar sem efnahagslegir fyrirvarar eru horfnir, þar sem við þurfum ætíð að greiða vexti, 35–40 milljarða, hugsanlega meira, á hverju einasta ári. Síðan greiðum við af höfuðstólnum ef hagvöxturinn verður einhver hér á landi.

Eins og áður var sagt, frú forseti, framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu þar sem framkvæmdarvaldið setur hér löggjafarvaldinu fyrirmæli um hvernig eigi að vinna, og sú framganga framkvæmdarvaldsins að segja dómsvaldinu í landinu líka fyrir um það með hvaða hætti það á að dæma, og setja Hæstarétti Íslands þau fyrirmæli að ráðgefandi úrskurður erlends dómstóls eigi að ráða í niðurstöðum Hæstaréttar, ef mál fer fyrir hann hvað þetta varðar, er algerlega óásættanlegt. Þetta er niðurlæging. Frumvarpið sem hér er er niðurlæging við Alþingi, framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafanum er niðurlægjandi, framganga framkvæmdarvaldsins gagnvart dómsvaldinu er niðurlægjandi, en framganga framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar með þessu frumvarpi stórskaðar íslenska þjóð og það er það versta, frú forseti.