138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:12]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur nokkurra spurninga. Fyrst vil ég hrósa hv. þingmanni fyrir mjög málefnalega ræðu sem greinilega hefur útheimt mikinn tíma í undirbúningi. Það voru margar áleitnar spurningar sem komu fram hjá hv. þingmanni, m.a. um samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég vil votta hv. þingmanni samúð mína fyrir það að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir frá okkur í stjórnarandstöðunni hafa hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra ekki látið svo lítið að sitja undir hinni stórgóðu ræðu þar sem m.a. voru spurningar um hvernig við eigum að haga samskiptum á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.

Ég vil um leið hrósa hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir að hafa setið hér og komið í andsvör en það er meira en segja má um marga starfsfélaga hans í ríkisstjórninni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér það sem Daniel Gros hefur lagt fram í þessari umræðu, staðreyndir og hugleiðingar sem komu eftir að málið var tekið út úr fjárlaganefnd með miklu ofbeldi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi kynnt sér þann mun sem er á vöxtum til innlánssjóðanna bæði í Bretlandi og Hollandi, en þjóðir þar í landi lána innlánssjóðum sínum á 1,5% vöxtum á meðan við erum að fá lán upp á 5,55%. Mér skilst að þetta séu upphæðir sem hlaupa á 185 milljörðum króna sem eru um það bil skattahækkanir ríkisstjórnarinnar næstu fjögur árin. Ég vil spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hún hafi skoðað þessi mál eitthvað og hvort það væri ekki vert að ræða þau í fjárlaganefnd.