138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:17]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns vil ég benda hv. þingmanni líka á það að sú klisja gengur víða í netheimum að mikið málþóf sé í gangi í þinginu þrátt fyrir að hv. þingmaður sé nýbúin að flytja fyrstu ræðu sína um málið í þessari 2. umr. og sá sem hér stendur hefur líka gert það.

Af því að við fengum ekki hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra hingað í salinn til að skiptast á skoðunum um þær starfsaðferðir sem ríkja í þinginu og hv. þingmaður hefur mikla reynslu m.a. af sveitarstjórnarstiginu þar sem ákveðið lýðræði er fyrir hendi líka, þá langar mig að biðja hv. þingmann um að bera stuttlega saman þau vinnubrögð sem hún upplifir hér þegar við stefnum í að halda fund inn í miðjar nætur núna næstu daga að öllu óbreyttu, hvort henni finnist slíkt fyrirkomulag vera til fyrirmyndar (Forseti hringir.) og hvort henni finnist ekki fjarvera margra stjórnarliða vera dálítið grunsamleg í þessari umræðu.