138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar fyrri hlutann í andsvari hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um þá tvo fræðimenn sem ég vitnaði í og sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra taldi að hefðu ekki haft nægar eða réttar upplýsingar, þá ítreka ég það sem ég sagði að skoðun þeirra og það sem þeir lögðu fram er skoðun þeirra vegna skýrslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem gefin var út 20. október 2009. Mér vitanlega er ekki til mikið nýrri skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um stöðu mála á Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stýrir efnahagslífinu með ákveðnum hætti, þannig að þessi skýrsla hlýtur að vera sú sem er þá marktækust. Ef hún er ónákvæm og illa uppbyggð hlýtur maður að áætla, hv. þingmaður, að þær tölur sem stjórnvöld eru að vinna með hljóti líka að vera álíka ómarktækar.

Hvað varðar þau orð að Seðlabankinn væri allt í einu núna orðinn trúverðugur hlýtur það að vera hið besta mál ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ber slíkt traust til Seðlabankans því að auðvitað á íslensk þjóð og íslenskir stjórnmálamenn að geta borið traust til Seðlabankans. Við skulum vona að hann sé þá á réttri leið á vegferð sinni.

Hvað varðar seinni hlutann í andsvari hv. þingmanns, nei, ég get ekki séð að það sé forsvaranlegt undir nokkrum kringumstæðum fyrir Alþingi Íslendinga, fyrir þingmenn á Alþingi Íslendinga, að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er í huga mínum algerlega óásættanlegt og verður að taka til frekari efnislegrar meðferðar og breytinga. Ekki er hægt að samþykkja það eins og það liggur fyrir, frú forseti.