138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er að velta því fyrir mér vegna þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er kominn til þessarar umræðu og hefur ekki verið við hana áður hvort hæstv. forseti gæti ekki hugsað sér að hliðra til í mælendaskránni eins og heimilt er samkvæmt 56. gr. þingskapa og gefa hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tækifæri til að tala ef hann svo kýs. Hann geti þá hugsanlega komið með röksemdir fyrir málinu sem ekki hafa komið fram frá þingmönnum stjórnarflokkanna. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á efnahagsmálum samkvæmt breytingum á Stjórnarráðinu sem gerðar voru í sumar og hefur í rauninni meiri efnahagslega vigt en ráðherra í slíkri stöðu hefur haft áður. Þetta mál er gríðarlega mikilvægt efnahagsmál og það væri mikill fengur að því ef hæstv. efnahags- (Forseti hringir.) og viðskiptaráðherra gæti tekið þátt í umræðunni eins og heimilt er að gera samkvæmt þingsköpum.