138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég get fyrst upplýst að það eru allmargir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í húsi og fylgjast með þeirri umræðu sem hér fer fram. En ég bað sérstaklega um orðið undir þessum lið til að bregðast við áskorun hv. 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður um að boða skyldi til fundar í utanríkismálanefnd. Ég get upplýst hann um að það hefur þegar verið gert og var gert hér fyrr í kvöld eða fyrr í dag. Sá fundur verður haldinn kl. 8.30 í fyrramálið þar sem það mál sem hann gerði að umtalsefni er meðal annarra á dagskrá. Ég vil þó taka fram að ég hefði kosið að þingmaðurinn kynnti sér ögn betur hvað liggur á bak við þá ályktun sem kom frá Evrópuþinginu og hann vitnaði í vegna þess að hann var ekki að vitna í ályktunina sem Evrópusambandið samþykkti, heldur var hann væntanlega að vitna í frétt sem birtist á vefmiðlinum Pressan.is og ég fullyrði það að sú frétt á ekki við rök að styðjast og samþykkt Evrópuþingsins inniheldur ekki þau orð sem hann vitnaði hér til (Forseti hringir.) í ræðustól.