138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, fékk formann utanríkismálanefndar til að halda fund í fyrramálið og er það vel. Hv. þingmaður veit margt miklu betur en við öll hin, en miðað við þær upplýsingar sem ég hef mun Bloomberg-fréttaveitan halda sig við þessa frétt. En gefum okkur það að hún sé röng, þá er samt af nógu að taka, það er af nógu að taka.

Hér fóru menn mikinn og sögðust ekki vera útsendarar Gordons Browns. Ef einhver reisn væri yfir meiri hlutanum hefði þessi umræða um Icesave verið stöðvuð þegar það bréf kom, því að menn sem bera virðingu fyrir sinni eigin þjóð láta ekki koma svona fram við sig. Og bréf Gordons Browns er nóg til þess að við segjum: Hingað og ekki lengra. Við ræðum ekki þetta mál undir hótunum frá einhverjum afdönkuðum stjórnmálamanni á (Forseti hringir.) Bretlandseyjum. Svo einfalt er það..