138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Tveir hv. þingmenn hafa borið fram einlægar óskir um að ég fari enn á ný í ræðustól og ræði þetta mál. Ég vil þakka fyrir þær beiðnir, sem eru að sjálfsögðu bornar fram af einskærum fróðleiksþorsta, en vil benda þessum þingmönnum og öðrum sem áhuga hafa á sjónarmiðum mínum á það að ég hef þegar rætt þessi mál, bæði í ræðu og andsvörum. Ég hef einnig rætt þau í fjölmiðlum og allt þetta er hægt að finna, ýmist á vef Alþingis eða á vef viðkomandi fjölmiðla. Ég tel því að sjónarmiðum mínum hafi þegar verið komið vel á framfæri, en auðvitað áskil ég mér rétt til þess að bæta enn við, komi ég fram með eitthvað fleira.