138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það var snöfurlega gert af hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að koma hér upp í fundarstjórn forseta og greina okkur frá því að hann hafi margt sagt og skrifað um Icesave-málið. Vissulega hafa þingmenn kynnt sér mörg þau sjónarmið sem þar hafa komið fram, en engu að síður er það nú svo að Icesave-málið er í 2. umræðu og væntanlega erum við að fara hér í lokasnerruna um þetta afdrifaríka mál fyrir íslenska þjóð. Ég held mikill bragur væri að því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tæki líka þátt í almennri umræðu um þetta mál hér í þinginu í kvöld. Hér eru gríðarleg tækifæri fyrir hæstv. efnahagsráðherra og ég vil hvetja hann til þess að taka t.d. þátt í andsvörum við þingmenn. Hér eiga eftir að tala mjög margir þingmenn sem sitja í þeim nefndum sem hafa fjallað um málið og ég veit að hv. þingmenn vilja gjarnan eiga orðastað við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að taka nú þátt í umræðunum og eiga orðastað við (Forseti hringir.) þingmenn á þessari mikilvægu stundu í málinu.