138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa átt sér stað töluverð orðaskipti um fundarstjórn forseta. Fjölmargar spurningar hafa verið lagðar fyrir hæstv. forseta. Enn hafa ekki komið nein svör frá forseta við þeim spurningum. Nú er klukkan að halla í tíu og ekki óeðlilegt af hálfu þingmanna að spurt sé hvaða fyrirætlanir hæstv. forseti hafi um þingstarfið í kvöld. Mér finnst ekki annað koma til greina en að hæstv. forseti svari þeim spurningum sem til hans hefur verið beint. Þetta eru ekki flóknar spurningar. Þetta eru spurningar um það hvenær fundir þingflokksformanna verða haldnir. Þetta eru spurningar um það hversu lengi eigi að halda hér inn í nóttina. Þetta eru spurningar sem varða skipulag þingmanna nú næsta sólarhringinn. Ég bið hæstv. forseta að gefa sér augnablik til að svara hv. þingmönnum um það hvaða fyrirætlanir hæstv. forseti hefur um framhald þinghaldsins hér í kvöld.