138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom líka fram í ræðu hv. þingmanns að hún hefur þegar sent frá sér formlega beiðni um að sú nefnd verði skipuð sem lengi hefur verið talað um í allt sumar. Hv. þm. Pétur Blöndal hafði mörg orð um það að við mundum fresta umræðunum og fara að kynna þetta, eins og hv. þingmaður hefur lagt núna fram með formlegum hætti, sem ég fagna sérstaklega.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann. Eins og hún kom inn á í ræðu sinni náðist ákveðin samstaða á þinginu, við komumst upp úr þessum pólitísku hjólförum í þó ekki nema nokkrar vikur en duttum samt snarlega ofan í þau aftur, hvort ekki hefði verið skynsamlegra strax í upphafi að nýta þá samstöðu og samheldni sem var í þinginu við afgreiðslu málsins þegar við afgreiddum fyrirvarana og hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að við hefðum þá fylgt því eftir og komið þessu á framfæri en ekki með því að senda bréf til forsætisráðherra Bretlands og Hollands eins og hæstv. forsætisráðherra gerði og hefur síðan ekki fengið svör. Það er varla hægt að kalla þetta svör, þetta er nánast móðgun við íslenska þjóð.