138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir góða og skýra ræðu og þakka henni sérstaklega fyrir að koma með þessa hugmynd um fimm manna nefndina, þingmannanefndina, sem hv. þingmaður ætlar það hlutverk að fara út í heim og tala máli okkar Íslendinga. Ég vil sérstaklega hrósa hv. þingmanni fyrir það, sérstaklega í ljósi þess að í dag hafa fallið þau orð af hálfu stjórnarþingmanna að við sem störfum í stjórnarandstöðunni höfum ekki neinar hugmyndir um hvað eigi að gera, hvernig eigi að taka á málum.

Mig langar að spyrja um málsmeðferðina á þessu frumvarpi í fjárlaganefnd. Beiðni kom frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar inni um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, kæmi á fund nefndarinnar til að tjá sig eftir að opinberlega var tekið við hana viðtal þar sem hún taldi að þetta væri málið, með leyfi forseta:

„Núna þegar við erum að reyna að semja okkur í gegnum Icesave, þá finnst mér svolítið eins og við komum fram eins og hinn seki … (Forseti hringir.) göngum til samninganna eins og sakamaðurinn.“

Hefur hv. þingmaður myndað sér skoðun á því hvort rétt hefði verið að kalla Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir nefndina?