138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði málefnalega um hvernig gengi að byggja upp samstarf við stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi og eftir atvikum fleiri aðila um að tryggja endurheimtu eigna gamla Landsbankans.

Því er til að svara að heilmikið er búið að vinna í því og við höfum þegar notið aðstoðar t.d. hollenskra stjórnvalda í sambandi við málefni Landsbankans þar í landi. Nú er það eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst í höndum skilanefndar og eftir atvikum slitastjórnar Landsbankans að fara með innheimtu eignanna og búsins, en stjórnvöld aðstoða að sjálfsögðu eftir því sem kostur er. Það er samstarf við bresk stjórnvöld og sérstaka deild lögreglunnar þar sem annast rannsókn efnahagsbrota. Þeir aðilar hafa komið hingað og líka verið heimsóttir í Bretlandi.

Það stendur yfir rannsókn á framgöngu íslensku bankanna í Bretlandi. Íslensk og bresk stjórnvöld skiptast á upplýsingum um það. Málefni bankanna eru til rannsóknar, bæði hjá Fjármálaeftirliti, sérstökum saksóknara og rannsóknarnefnd Alþingis. Ég held að ég geti bara fullyrt að það verður reynt allt sem hægt er, bæði af okkar hálfu og í samstarfi við aðra aðila, til að rekja þræðina og slóðina og reyna að tryggja innheimtu eigna til búsins (Forseti hringir.) eins og kostur er.

Loks má nefna það að sérstakt skaðabótamál (Forseti hringir.) kemur til greina af hálfu ríkisins vegna þess tjóns sem (Forseti hringir.) tilteknir aðilar bökuðu þjóðinni í þessu tilviki.