138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að þora að koma upp í andsvar við mig, ég met það mikils, þetta er skemmtilegt. En það er akkúrat vel til fundið hjá hv. þingmanni að spyrja út í þessa grein Sigurðar Líndals, vegna þess að ég kom henni ekki að í mínu máli. Ég náði reyndar ekki að klára mál mitt og óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá, herra forseti. En þetta er akkúrat atriði sem ég tel að fara verði vel yfir í nefndinni. Ég tel að okkur beri virkilega skylda til að standa vörð um stjórnarskrána. Það er okkar stærsta skylda, við höfum öll undirritað eið að henni eins og hv. þingmaður bendir á. Ef ég má vitna aðeins í grein Sigurðar Líndals, með leyfi herra forseta, þá segir hér:

„Merkilegt má heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið (og þá um leið þjóðina) með þessum hætti — hvort ekki sé óhjákvæmilegt að setja slíkum skuldbindingum, sem allt bendir til að verði mjög þungbærar, einhver takmörk eins og leitast var við að gera í lögum nr. 96/2009. — Og þá hlýtur stjórnarskráin að koma til skoðunar.“

Herra forseti. Þarna er kjarni málsins og þetta er atriði sem ég vil ekki láta vera órætt í þinginu. Hvernig ætla þingmenn, sem ætla að samþykkja þetta frumvarp, að verja það gagnvart komandi kynslóðum, hafandi lesið þessa grein eins okkar virtasta lagaprófessors af blaði sem birtist opinberlega, og fjalla síðan ekkert um þetta? Hver treystir sér til að stuðla að slíku?

Herra forseti. Ég tel og ég lagði það reyndar til í ræðu minni á þriðjudaginn að gert yrði hlé á umræðu um þetta mál og málið kallað inn í nefnd einmitt til að ræða þetta atriði og fleiri, vegna þess að ég tel að þetta sé það stórt og viðamikið og ef brotalöm er á því varðar það trúverðugleika okkar allra og er í rauninni mjög alvarlegur hlutur þar á ferð ef ekki er gætt að því að virða stjórnarskrána í þinginu sjálfu.