138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo sannarlega skulum við halda áfram að tala í þessu máli því eins og þingmaðurinn segir virðist ekki vera vilji hjá stjórnarþingmönnum að tala í þessu máli eða kynna sér og taka tillit til þeirra stóru og miklu ábendinga sem við höfum komið á framfæri við afgreiðslu þess. Ég minni enn og aftur á það að í sumar áttu að koma hér inn í þingið óséðir Icesave-samningar.

Hvað höfum við staðið hér í marga mánuði og fjallað um Icesave? Hversu miklum bótum hefur stjórnarandstaðan komið í gegn með Icesave-samningana? Þær bætur eru mjög miklar þannig að við höfum ekki gefist upp og við töpum ekki orrustunni fyrr en í fulla hnefana, ég tala fyrir mig og Framsóknarflokkinn.

Í sambandi við það að álit EFTA skuli liggja til grundvallar, þá stendur í frumvarpinu að ekki sé litið svo á að Íslendingar hafi afsalað sér dómsmálinu ef í ljós kemur að við eigum ekki að greiða þessar skuldir en þarna er búið að flækja EFTA-dómstólnum inn í þetta, að við þurfum að lúta erlendum dómstólum í stað þess að hægt sé að taka málið upp hér á landi.

Breskir dómstólar þurfa oft að taka ákvarðanir sem byggja á landsrétti en þar sem Bretar eru líkt og við aðilar að efnahagssvæðinu þarf oft að dæma á grunni tilskipana frá ESB. Mér skilst að vegna þess hafi Bretar og Hollendingar óskað eftir því að álit EFTA liggi til grundvallar svo Íslendingar viðurkenni skuldbindingar sínar að Evrópurétti. Forseti EFTA-dómstólsins hafði ekki heyrt um þetta og segir að þetta sé alveg ný túlkun þannig að ég spyr þingmanninn: Er ekki verið að fara með þetta stóra mál í algjöra óvissu þar sem hvergi eru dómafordæmi eða úrlausnir EFTA-dómstólsins fyrir (Forseti hringir.) svona stórum málum sem skipta íslensku þjóðina allt upp að þúsund milljörðum?