138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, við erum sammála um að það rekur sig réttilega hvert á .... Herra forseti, ég biðst forláts. Það rekur sig réttilega hvað á annars horn, ekki bara í mínu máli gagnvart forseta heldur fyrst og fremst hjá ríkisstjórninni varðandi öll erlend samskipti. Þau eru makalaus með öllu og ég tek undir með hv. þingmanni að undirlægjuhátturinn gagnvart Hollendingum og Bretum er mikill. Í stað þess að leita samstöðu sem hefði líka verið snjöll pólitísk leið fyrir þau, þá var farin leið undirlægjuháttar en líka kergju: Við getum þetta sjálf án ykkar atbeina.

Forsætisráðherra sagði í dag að hér mundi skella á frostavetur ef málið yrði látið liggja. Er hv. þingmaður sammála þessu? Við erum náttúrlega oft búin að heyra þetta, en hvaða rök telur þú að forsætisráðherra hafi fyrir því að geta tekið svona stórt upp í sig með því að segja að það skelli hér á frostavetur og viðhaldið þessum dæmalausa hræðsluáróðri sem er búinn að vera dynjandi yfir okkur ekki bara í vetur heldur í allt heila sumar og aldrei komið neitt á daginn þó að málið hafi beðið. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hvað telur hv. þingmaður að forsætisráðherra hafi fyrir sér í því að hér skelli á einhver frostavetur?