138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

slökkvilið Reykjavíkurflugvallar.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að ræða öryggismál. Mig langar að ræða örlítið við hæstv. samgönguráðherra um slökkvilið á Reykjavíkurflugvelli. Ég undrast svolítið hvernig Flugstoðir, sem heyra undir ráðherrann, standa að málum varðandi slökkviliðið á flugvellinum. Ég er hér með auglýsingu þar sem Flugstoðir eru að auglýsa eftir flugvallarvörðum og, með leyfi forseta, stendur um hæfniskröfur: „Meirapróf er skilyrði. Reynsla af slökkvistörfum, snjóruðningi og hálkuvörnum væri kostur.“

Ég velti fyrir mér hvort meiraprófið sé meira virði á flugvellinum heldur en hafa reynslu og menntaða menn í björgunarstörfum til að vera til taks fyrir okkur farþegana sem nýtum þessar samgöngur. Þá er ámælisvert að Flugstoðir hafa hvorki svarað Brunamálastofnun né Landssambandi slökkviliðsmanna varðandi þær fyrirspurnir sem þeir hafa lagt fram og bið ég ráðherrann ganga í það að það svar muni berast. Það að vera með menntaða slökkviliðsmenn á Reykjavíkurflugvelli snýst um öryggi flugfarþega fyrst og fremst og að mínu viti nægir ekki að vera með — og nú ætla ég ekki að gera lítið úr húsvörðum Íslands, húsverði með meirapróf ef þeir hafa litla reynslu af slökkvistörfum. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu að þarna sé um menntaða menn að ræða. Mig langar að spyrja ráðherra út í grein eða frétt sem var í Morgunblaðinu, því að þar segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða, að hugmyndin sé að nýta starfsmennina í fleiri störf og um hagræðingu sé að ræða með fullu samþykki samgönguráðuneytisins. Er það þannig, hæstv. ráðherra, að þú sért samþykkur því að ekki verði menntaðir slökkviliðsmenn á Reykjavíkurflugvelli til halds og trausts fyrir farþegana eða ertu til í að skoða það að hinir menntuðu slökkviliðsmenn ...?

(Forseti (ÁRJ): Ég vil biðja hv. þingmann að beina orðum sínum til forseta.)

Já, fyrirgefðu, frú forseti, mig langar þá að velta því upp við hæstv. ráðherra hvort hann sé samþykkur því að menntaðir slökkviliðsmenn verði á Reykjavíkurflugvelli en taki þá hugsanlega að sér önnur störf eins og t.d. hálkuvarnir?