138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

slökkvilið Reykjavíkurflugvallar.

[10:40]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður gerir hér að umræðuefni þá stendur það ekki til og Flugstoðir eru ekki að gera neitt sem ógnar öryggi flugfarþega á Reykjavíkurflugvelli þó að fyrirtækið sé eins og allir aðrir að leita leiða til sparnaðar og eitt af því var að viðræður gengu ekki upp milli slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu og Flugstoða og þess vegna var þeim samningi sagt upp. Flugstoðir hafa sýnt okkur í þessum sparnaðarhugleiðingum sínum að ná megi verulegum sparnaði með því að ráða flugvallarverði og færa þá til.

Ég ítreka bara það sem ég segi hér að það stendur ekki til að gefa neinn afslátt á örygginu, svo er ekki, en við getum líka farið svolítið aftur í tímann, hvernig þetta var áður. Og af því að hv. þingmaður gerir mikið úr auglýsingu, sem ég verð að játa að ég hef ekki séð, um að krafist sé meiraprófs og, að mér finnst, gerir svo lítið úr því, þá liggur það náttúrlega í augum uppi að það er sama hvort það eru slökkviliðsmenn eða flugöryggisverðir, þeir þurfa örugglega að hafa meirapróf til að keyra þau tæki sem þarf að keyra þar. Ég held að það sé ekki aðalatriðið eins og mér fannst hv. þingmaður gera að umræðuefni að leggja áherslu á meiraprófið frekar en eitthvað annað.

Virðulegi forseti. Þetta er bara þannig að allir stofnanir eru að leita að hagræðingu og sparnaði, enda dynur hagræðingarkrafa á þeim og við þurfum að taka 10% eins og við höfum verið að gera. Þetta er einn liðurinn í því og við skulum vona að Flugstoðum takist að sigla þessu í höfn og klára það mál. En ég þekki það líka að það eru oft átök við stéttarfélög og fleira um að halda sínum hlut en aðalatriðið er að það mun aldrei verða samþykktur neinn afsláttur á öryggismálum. Það er einfaldlega þannig að Flugmálastjórn Íslands hefur það mikið eftirlitshlutverk með þessu og þetta yrði aldrei gert ef það ógnaði flugöryggi.