138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

kostnaður vegna bankaráðsmanns í Seðlabanka.

[10:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Því er til að svara að svo virðist sem Seðlabankinn verði að bera þennan kostnað. Hann hefur ritað bæði mínu ráðuneyti og fleiri aðilum og leitað svara við því hvar þessi kostnaður ætti að lenda en það virðist ekki vera hægt að finna nein önnur svör en að fella verði kostnaðinn á almenn rekstrarútgjöld Seðlabankans. Upphæðirnar liggja ekki alveg fyrir en hér er bæði um verulegan ferðakostnað að ræða og einnig þýðingar og túlkakostnað. Mér þykir líklegt að 5 millj. kr. á ári gætu verið nærri lagi en ég skal þó ekki fullyrða um hvort það sé endanleg tala. Auðvitað er það ekki stærsta fjárhagslega áfallið sem Seðlabankinn hefur orðið fyrir en það munar um allt á samdráttartímum þannig að Seðlabankinn hefur ekki (Gripið fram í.) tekið þessu fagnandi. Ég vil taka það fram að ég hef ekkert út á faglega hæfni þessa manns að setja og tel að hann geti nýst í þessu bankaráði eins og aðrir bankaráðsmenn. Vegna samanburðar við peningastefnunefndina er rétt að taka fram að þótt þar sé einnig erlendur aðili, kona, er ekki viðbótarþýðingarkostnaður vegna hennar vegna þess að gögnin sem peningastefnunefndin vinnur með, fundargerðir hennar og annað sem frá henni kemur, eru hvort eð er öll þýdd yfir á ensku vegna þess að Seðlabankinn birtir bæði á íslensku og ensku fundargerðir, niðurstöður af fundum peningastefnunefndar og gögn um íslensk efnahagsmál, sem eru grunnurinn að ákvörðun peningastefnunefndar, þ.e. hvort þau eru á ensku. En þau málefni og þau gögn sem fara fyrir bankaráðið og koma frá bankaráðinu hafa yfirleitt ekki verið þýdd til þessa.