138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[10:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Á dögunum átti ég orðastað við fjármálaráðherra þar sem við fjölluðum um áhættu ríkisins annars vegar af föstum vöxtum og hins vegar af breytilegum vöxtum af Icesave-skuldbindingunum. Eitt af því sem ráðherrann sagði var, með leyfi forseta:

„Varðandi vexti verða menn að horfa á muninn á því að festa lán til langs tíma á föstum vöxtum öryggisins vegna. Það er mat þeirra fagaðila sem leitað var ráðgjafar hjá að það væri skynsamlegt vegna þess að ríkið tekur lán til skemmri tíma á breytilegum vöxtum. Með því er áhættunni dreift. Var talið að þetta kæmi einfaldlega betur út og væri í heildarsamhengi mála skynsamleg ráðstöfun af hálfu ríkisins og varð niðurstaðan þessi.“

Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún viti hvaða fagaðilar það voru sem fengnir voru til að meta þetta. Enn fremur: Hefur hæstv. ráðherra séð þetta mat? Í þriðja lagi: Ef matið hefur á annað borð verið gert, væri náðarsamlegast hægt að fá aðgang að því?