138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

vextir af Icesave.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var mikið farið yfir fasta og breytilega vexti í kringum Icesave-samningana og lánin sem við höfum verið að taka. Það var mat Seðlabankans að ekki væri skynsamlegt að hafa þau á breytilegum vöxtum og ekki skynsamlegt vegna vaxtaáhættu að vera með öll lánin t.d. á breytilegum vöxtum. Fastir og breytilegir vextir eru, eins og hv. þingmaður þekkir, í sögulegu lágmarki um heim allan um þessar mundir og flestir eru sammála um að vextir muni hækka verulega á næstu árum. Þess vegna tel ég ekki skynsamlegt að vera með mikið af lánum í breytilegum vöxtum og þeir útreikningar sem komu frá Seðlabankanum á sínum tíma að því er þetta varðar sýndu þetta ótvírætt. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða skýrslu hv. þingmaður er að vísa í en öll gögn um þessi mál eiga að vera opinber og séu til einhverjar skýrslur sem sýna samanburð á því sem mér heyrist hv . þingmaður vera að kalla eftir, ætti hv. þingmaður að hafa aðgang að þeim. En þetta var mat Seðlabankans á sínum tíma og ég tel að það hafi ekki breyst m.a. vegna þess hvernig staðan á vöxtum er núna um heim allan.