138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í gærkvöldi var tekin fyrir dagskrártillaga sem flutt var af hv. þm. Illuga Gunnarssyni, Gunnari Braga Sveinssyni og Birgittu Jónsdóttur og laut sú tillaga að því að við tækjum Icesave-málið frá og hleyptum fram fyrir fjáraukalögum og ráðstöfunum í skattamálum til að tryggt væri, t.d. eins og með ráðstafanir í skattamálum, að það gæti gengið til nefndar sem fyrst til að liðka og flýta fyrir því að við getum afgreitt fjárlög. Síðan væri hægt að halda áfram með Icesave-umræðuna.

Í 63. gr. þingskapa 2. mgr. kemur fram að forseti getur breytt röðun á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá. Það er því í hendi forseta að taka slíka ákvörðun. Því legg ég til að frú forseti taki nú þá ákvörðun til að liðka fyrir störfum í þinginu til að tryggja að mikilvæg mál gangi fram. (Forseti hringir.) Að hún taki þetta mál af dagskrá og hleypi fram fyrir öðrum mikilvægum málum sem svo sannarlega þurfa að klárast sem fyrst.