138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég varð nokkuð hugsi við svör forsætisráðherra áðan og það varðar fundarstjórn forseta alveg fullkomlega þegar forsætisráðherra óskar eftir því að farið verði yfir það í forsætisnefnd hvaða gagnrýni hefur komið fram á hendur ríkisstjórninni í þessum þingsal. (SII: Ekki gagnrýni.) Hvað á forsætisráðherra við? (SII: Orðfæri. …) Ef tala á um orðfæri í þingsal (Iðnrh.: Það er verið að tala um …) þá held ég að það ætti að skoða það (Iðnrh.: Almenna hagsmuni.) og eins frammíköll hæstv. iðnaðarráðherra. En hins vegar er þarna verið að fara út á verulega hættulegar brautir ef forsætisráðherra kveinkar sér undan því við forseta að hún sæti harðri gagnrýni í þinginu. Hér eru alvarleg mál til umræðu og auðvitað verður mönnum heitt í hamsi. Forseti (Forseti hringir.) á hverjum tíma á auðvitað að gera athugasemdir en á forsætisráðherra að óska eftir einhverjum sérstökum aðgerðum af hálfu forsætisnefndar af því tilefni? (SII: Já.)