138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, auðvitað eigum við að vera gætin í orðavali og ekki mjög stórorð og þegar þetta kemur úr munni hæstv. utanríkisráðherra vitum við að hér talar maður af reynslu og við eigum þess vegna að hlusta á hann. En það er hins vegar misskilningur hjá honum að verið sé að taka einhver mál í gíslingu. Þvert á móti höfum við, eins og kom fram hjá formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins rétt áðan, hvað eftir annað boðið upp á það og hvatt hæstv. forseta til að breyta dagskrárröðinni, rétt eins og alvanalegt er að gera einmitt við aðstæður eins og þessar. Það er auðvitað alveg rétt að Icesave-málið er mjög stórt mál, það er mikilvægt mál. Hins vegar hefur það þá sérstöðu sem komið hefur fram sérstaklega hjá stjórnarliðum upp á síðkastið að afgreiðsla þess er ekki brýn. Það er hins vegar miklu brýnna að taka til afgreiðslu önnur mál sem eru á dagskránni. Þess vegna tek ég undir það og hvet hæstv. forseta til að greiða fyrir þingstörfum, svo ég noti fleyg orð sem stundum féllu í þingsalnum hjá tilteknum manni, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) með því að breyta dagskrárröðinni þannig að hægt sé að fara að ræða þau mál sem máli skiptir að afgreiða fyrir jólin.